Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Útihlaupin úr sögunni hjá Keflavík
Laugardagur 7. mars 2015 kl. 12:34

Útihlaupin úr sögunni hjá Keflavík

Áherslubreytingar hafa verið gerðar á þjálfun Pepsi-deildarliðs Keflavíkur í vetur

Kristján Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur, lítur björtum augum á keppnistímabilið sem er framundan í Pepsi-deildinni. Áherslubreytingar hafa verið gerðar á þjálfun liðsins í vetur og útihlaupin eru ekki á dagskrá lengur og aðeins unnið með bolta í þolþjálfunni. Leikmannamálin eru enn í vinnslu en Kristján telur að íslensk félagslið séu ekki nógu framsýn þegar kemur að uppbyggingu sinna félagsliða.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið? – áherslur og annað sem því fylgir?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Undirbúningstímabilið hefur gengur vel. Við fórum aðeins breytta leið þetta árið og tókum aðeins lengra frí strax eftir að mótinu lauk s.l. haust. Það var því minna um frí yfir hátíðirnar – og þolþjálfuninni er stýrt með öðrum hætti en áður. Engin útihlaup og öll hlaup án bolta eru farin út. Öll þolþjálfun fer fram inni á fótboltavellinum við að spila leikinn sjálfan á mismunandi stórum svæðum, tímalengd, fjölda leikmanna inni á vellinum í senn, mismunandi hvíldir á milli leikja o.s.frv. Strákarnir hafa tekið mjög vel í þetta þrátt fyrir að fyrir marga þeirra er þetta algerlega nýtt.“

Hvernig metur þú stöðuna á liðinu fyrir átökin í Pepsideildinni?

„Staðan á liðinu er góð. Það eru engin sérstök meiðsli á leikmönnum sem um getur sem þýðir að við getum spilað leikina okkar á  þeim leikmönnum sem mest mun mæða á í sumar. Alexander Magnússon er að vísu að koma til baka baka eftir hnéaðgerðina en hann lítur vel út og verður kominn á fljúgandi ferð fyrr en varir. Markmiðin í fyrra voru að bæta í frá fyrri árum, vera hærra í töflunni í lok móts og hrista frá okkur falldrauginn en jafnframt minna á okkur í leiðinni. Það tókst fyrir utan það að drauginn var erfitt að setja niður. Í ár viljum við halda áfram að láta minna á okkur og ljúka mótinu hærra í töflunni en undanfarin ár. Undanfarin ár  hafa kennt okkur að við þurfum líklega aðeins stærri leikmannahóp til að mæta afföllum sem vilja verða við meiðsli eða annað.“

Hvernig er staðan á leikmannamálunum og er liðsstyrkur í kortunum?

„Við þurfum að bæta við okkur eins og þremur fullvöxnum leikmönnum fyrir tímabilið. Til þess að bæði fylla í þau skörð sem höggvin eru í leikmannahópinn frá í fyrra sem og að hjálpa okkur í að þróa og þroska þá ungu leikmenn sem æfa með meistaraflokknum. Við erum að vinna í þessum málum öllum stundum, það eru margir leikmenn erlendis frá í boði. Það er eins og að ganga um jarðsprengjusvæði að fara um þann akur og þurfum við að halda vöku okkar þar þegar ákveðið er hvaða leikmenn á að taka til landsins. Innanlandsmarkaðurinn er aftur á móti mjög þröngur en þar þarf jafnframt að taka klókar ákvarðanir. Við erum nú þegar búnir að gera samkomulag við spænskan markvörð og mun hann vinna í markmannsstöðunni í samkeppni og samvinnu við Sindra Kristin.“



Þín tilfinning fyrir Pepsi-deildinni í sumar?

„Það er gjá á milli þeirra liða sem ná í tekjur frá UEFA, ekki bara á Íslandi heldur einnig í flest öllum öðrum deildum í Evrópu. Þetta hefur gerst mjög hratt hér á Íslandi seinustu ár og athyglisvert er að skoða hversu marga erlenda leikmenn liðin sem ætla sér Evrópusæti í ár munu ná sér í til þess eins að tryggja Evrópuveltuna. Þær tölur sem rúlla í gegnum reikningana hjá liðunum sem hafa reglulega verið í efstu sætum deildarinnar seinustu ár eru óþægilega mikið hærri en margra þeirra liða sem eiga að keppa við þau á samkeppnisgrundvelli úti á knattspyrnuvellinum. Fyrir þau lið sem ekki hafa aðgang að þess háttar tölum er mikilvægt að standa vel að barna og unglingaþjálfun og spara hvergi til þar til þess að koma leikmönnum upp í mfl. félaganna og treysta á sölu leikmanns erlendis kannski annað hvert ár. Jafnframt þurfa þessi sömu lið að ná að vera skrefinu á undan í einhverjum af þeim þáttum sem snúa að þjálfun og þroska knattspyrnuliðs. Fylgjast vel með nýjabruminu og vera óhrædd við að prófa nýjar og þroskandi leiðir við þjálfun til að ná þessu örlitla forskoti sem þarf. Við höfum tekið þau skref t.d. með breyttri þolþjálfun hjá liðinu okkar. Annað sem virðist fylgja þessu mikla kapphlaupi um UEFA tekjur og titlatog er hversu skammt of mörg félög hugsa. Það er undantekning að finna lið sem hugsar eitthvað fram í tímann með liðið sitt eða leikmannahóp, oft er ekki hugsað lengra en fram að næsta leik í deildabikar! Auðvitað viljum við alltaf vinna næsta leik en ef engin framtíðarstefna er t.d. í leikmannamálum félaga þá kemur ansi fljótt að þeim tímapunkti að enn erfiðara verður fyrir liðin að vinna einmitt þennan næsta leik,“ sagði Kristján Guðmundsson.