Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 8. apríl 2000 kl. 15:56

Úrslitin ráðast í oddaleik

KR vann Keflavík, 58:42 í fjórða leik liðanna í úrslitunum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta, en leikurinn fór fram í Keflavík í dag. Staðan í einvígi liðanna er nú jöfn 2-2 og munu úrslitin því ráðast í oddaleik í Íþróttahúsi KR í Frostaskjóli á mánudag.Leikurinn fór hægt af stað og greinilega stress hjá báðum liðum, enda staðan ekki nema 4:4 eftir fimm mínútna leik. Undir lok fyrri hálfleiks stakk KR síðan af og var komið sjö stigum yfir í hálfleik, 19:26. Undir lok fyrri hálfleiks meiddist Erla Þorsteinsdóttir, leikmaður Keflavíkur í baki og var flutt á brott í sjúkrabíl. Meiðsli hennar voru þó ekki alvarlegri en svo að hún mætti aftur í íþróttahúsið og horfði á lok leiksins. Í síðari hálfleik hélt KR forskotinu og náði að auka það undir restina, en ekkert gekk upp hjá heimamönnum. “Við vorum að spila illa í leiknum og vorum allt of mikið að láta dómarana fara í taugarnar á okkur. Við fáum eitt tækifæri í viðbót til að tryggja okkur sigurinn og ég vil hvetja stuðningsmenn okkar til að mæta í Vesturbæinn á mánudagskvöldið klukkan átta og styðja við bakið á okkur,” sagði Anna María Sveinsdóttir, fyrirliði Keflavíkur eftir leikinn. Kristinn Einarsson, þjálfari Keflavíkurliðsins, varð full argur út í dómarana þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum. Hann skeytti skapi sínu á nærstöddum stól, sem hann sparkaði í vegginn, með þeim afleiðingum að hann brotnaði. Kristinn var umsvifalaust rekinn úr húsi af dómurum leiksins og verður mál hans tekið fyrir hjá Aganefnd KKÍ á morgun. Stigahæst heimamanna var Alda Leif Jónsdóttir, með 11 stig, en næst henni var Anna María Sveinsdóttir með 10. Í liði KR var Guðbjörg Norðfjörð stigahæst með 14 stig, en næstar voru Gréta M Grétarsdóttir með 11 stig og Hanna Kjartansdóttir með 10.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024