Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sunnudagur 2. nóvember 2003 kl. 21:50

Úrslitin í Hópbílabikarnum í kvöld

Keflavík og Grindavík spiluðu í 8-liða úrslitum Hópbílabikars karla í kvöld og Njarðvíkurstúlkur öttu kappi við ÍS í Hópbílabikar kvenna.

 

Hópbílabikar karla

Keflavík vann auðveldan sigur á Hamri í heimsókn sinni í kvöld. Lokatölur voru 65-95 Keflavík í vil. Keflavík leiddi allan leikinn og eru líklegir til að komast áfram í næstu umferð þar sem Hamar þarf að vinna seinni leikinn með 31 stigs mun til að slá Keflavík út. Stigahæstir Keflvíkinga voru Derrick Allen, sem skoraði 32 stig og tók 10 fráköst, og Nick Bradford, sem skoraði 18. Ekki náðist í þjálfara Keflavíkur til að gefa álit sitt á leiknum. Að lokum minnum við stuðningsmenn Keflavíkur á Evrópuleikinn á móti Ovarense sem fer fram næstkomandi miðvikudag.

 

Grindavík tapaði fyrir ÍR í Seljaskóla, en lokatölur voru 82-79. Grindvíkingar, sem eru enn ósigraðir í Intersport-deildinni, áttu ekki góðan dag og voru undir allan leikinn. Munurinn var þó aldrei mikill og var leikurinn spennandi fram á síðustu sekúndur. Friðrik Ingi, þjálfari Grindavíkur var ekki ánægður með leik sinna manna sem hann sagði hafa verið slæman. „Við hittum illa utan af velli og strákarnir voru oft alltof fljótir á sér í sókninni þannig að ÍR fékk mikið af auðveldum skotum.“ Hann er þó bjartsýnn á að klára dæmið í seinni leiknum sem verður í Grindavík.

Stigahæstir Grindvíkinga voru Darrel Lewis, sem skoraði 27 stig og tók 16 fráköst, og Páll Axel Vilbergsson sem skoraði 22 stig.

 

Hópbílabikar kvenna

Njarðvík beið lægri hlut fyrir ÍS í kvöld 79-55. Njarðvík var án tveggja mikilvægra leikmanna, Evu Stefánsdóttur og Grétu Jósepsdóttur, og voru þess vegna veikari undir körfunni og tóku mun færri fráköst. ÍS-stúlkur leiddu allan leikinn og spiluðu mjög vel.

Stigahæstar Njarðvíkinga voru Andrea Gaines, sem skoraði 21 stig og tók 10 fráköst, og Auður Jónsdóttir sem skoraði 13 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024