Úrslitastund í Röstinni
Tveir oddaleikir fara fram í úrslitakeppni Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. KR og ÍR mætast í oddaleik í Vesturbænum og Grindvíkingar taka á móti Skallagrím í Röstinni í Grindavík. Deildarmeistarar Keflavíkur og bikarmeistarar Snæfells hafa þegar tryggt sig áfram í undanúrslit. Snæfell lagði Njarðvíkinga 2-0 og Keflavík hafði 2-0 sigur á Þór.
Páll Axel Vilbergsson hefur átt góðu gengi að fagna með Grindvíkingum í vetur og hefur gert 51 stig í fyrstu tveimur leikjunum gegn Skallagrím. Páll Axel sagði í samtali við Víkurfréttir að Grindvíkingar hefðu notað síðustu daga til að fínpússa sinn leik.
,,Við höfum verið að fara yfir atriði sem hafa verið að klikka hjá okkur,” sagði Páll og kvaðst tilbúinn í leik kvöldsins. ,,Það er ekki til neitt dagsform eins og oft er rætt um. Það þýðir ekkert að sitja og bíða eftir einhverju dagsformi. Skallarnir mættu ekki tilbúnir í fyrsta leik og við notfærðum okkur það. Þeir voru töluvert tilbúnari í leikinn í Borgarnesi á meðan við vorum ekki að leika okkar besta leik. Við viljum spila mjög hratt og skipulega en eigum það til að spila hratt og óskipulega. Ef við náum upp okkar leik, spilum hratt og af krafti þá erum við skratti góðir,” sagði Páll sem er 30 ára gamall og virkar eins og rauðvínið.
,,Maður verður bara betri með aldrinum og ég hef svolítið pælt í því hvað séu mörg ár eftir hjá mér í boltanum. Ég er bara skíthræddur um að ég hætti ekkert ef ég held áfram að bæta mig svona,” sagði Páll Axel léttur í bragði sem kvaðst sáttur við þann bolta sem Grindavíkurliðið væri að spila.
,,Við leikum fjölbreyttan og skemmtilegan körfubolta og ég finn mig vel í okkar leik. Ég er ekki mikill götukörfuboltamaður en þegar liðsheildin er sterk og liðið vel slípað saman þá finn ég mig vel,” sagði Páll sem gert hefur 22,4 stig að meðaltali í leik hjá Grindavík í vetur. Páll verður í eldlínunni í kvöld þegar Skallagrímsmenn mæta í Röstina kl. 19:25.