Úrslitastund í Evrópuboltanum
Keflavík mætir svissneska liðinu Benetton Fribourg Olympic í seinni leik liðanna í úrslitakeppni Bikarkeppni Evrópu í kvöld. Sæti í 8 liða úrslitum er í boði, en leikurinn fer fram í Sláturhúsinu við Sunnubraut og hefst kl. 20.30.
Fribourg vann fyrri leik liðann í Sviss með 8 stigum, 103-95, en það verður að segjast að Keflavíkurhraðlestin fór verulega út af sporinu á þeim 40 mínútum. „Við vorum alveg skelfilegir í þessum leik,“ segir Gunnar Einarsson, fyrirliði, og dregur ekki dul á að hann var ekki sáttur við eigin frammistöðu þar.
Undantekningin á því var Anthony Glover sem fór hamförum í leiknum og skoraði 46 stig. „Glover spilaði svakalega vel úti en við verðum allir að eiga góðan leik til að vinna þá með meira en 8 stigum. Við eigum nóg inni frá fyrri leiknum þar sem ég og Maggi vorum til dæmis ekki að skila neinu.“
Gunnar segir heimavöllinn skipta miklu máli sem og stuðningur áhorfenda. „Þetta er heimavöllurinn okkar og maður þekkir körfurnar betur. Við vitum hvað við þurfum að gera til að vinna þennan leik. Átta stig eru ekki neitt í körfubolta og eru fljót að koma eða fara. Þetta er ekki nema ein rispa hjá okkur og það ætti að duga. Það verður vonandi húsfyllir í kvöld og ég hvet alla til að mæta og styðja við bakið á okkur.“