Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslitastund í bikarnum
Laugardagur 30. september 2006 kl. 10:40

Úrslitastund í bikarnum

Keflavík og KR mætast í úrslitaleik VISA bikarkeppninnar í knattspyrnu á Laugardalsvelli í dag kl. 14:00. Mikil eftirvænting hefur verið eftir leiknum síðan keppni í Landsbankadeildinni lauk og loks er stóra stundin runnin upp. Stuðningsmenn Keflavíkur hittast í anddyri Laugardalshallarinnar og berja sig þar saman fyrir leikinn og mun Pumasveitin sjá um að koma mannskapnum í góðan gír.

 

Hér að neðan gefur að líta nokkra bikarmola:

 

Leiðin í bikarúrslit

 

Bikarganga Keflavíkur hófst fimmtudaginn 6. júlí í 16 liða úrslitum eða svokallaðari aðalkeppni VISA bikarsins. Lið í neðri deildum kepptu sín á milli um sæti í 16-liða úrslitum og heimsóttu Keflvíkingar Leikni í fyrstu umferð.

 

Á góðum degi hefðu Leiknismenn eflaust getað náð hagstæðari úrslitum gegn Keflavík en þetta var á kafla hjá Keflavík í sumar þegar þeir voru að leika liða best á landinu. Leiknismenn voru því auðveld bráð og lokatölur leiksins 3-0 fyrir Keflavík þar sem Stefán Örn Arnarson gerði tvö mörk og Guðmundur Steinarsson eitt.

 

Næsti bikarleikur Keflavíkur er svo orðinn margfrægur en þá mættu þeir ÍA uppi á Skipaskaga og lauk þeim leik með 4-3 sigri Keflavíkur. Leikurinn gegn ÍA dró töluverðan dilk á eftir sér þar sem Guðmundur Mete, einn sterkasti varnarmaður landsins um þessar mundir, var settur í leikbann eftir viðskipti sín við enn leikmann ÍA.

 

Á Laugardalsvelli mættust Keflavík og Víkingur í fjórðungsúrslitum bikarsins þar sem Jónas Guðni Sævarsson gerði sitt fyrsta bikarmark og setti markatóninn fyrir sína

menn. Í kjölfarið fylgdu þrjú mörk, eitt frá Tóta og tvö frá fyrirliðanum, og lokatölur því 4-0 fyrir Keflavík sem tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum með þessum stórsigri á Víkingum.

 

Viðureignir liðanna í deildinni í sumar

 

Keflvíkingar höfðu betur í innbyrðisviðureignum gegn KR í Landsbankadeildinni í sumar, 5-2. Fyrri leik liðanna á Keflavíkurvelli lauk með 3-0 sigri heimamanna. Mörk Keflavíkur í þeim leik gerðu Magnús Þorsteinsson, Daniel Severino og Símun Samuelsen þar sem Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum.

 

Á KR velli voru það fyrirliðinn Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Brynjar Kristjánsson sem gerðu mörk Keflavíkur í 2-2 jafntefli liðanna. Þessi síðari viðureign liðanna var öllu jafnari en sú fyrri og var hart barist á blautum vellinum. Björgólfur Takefusa og Sandgerðingurinn Grétar Ólafur Hjartarson gerðu sitt markið hvor fyrir KR í leiknum. Keflvíkingar luku keppni í 4. sæti Landsbankadeildar en KR-ingar náðu 2. sæti í deildinni eftir hreinan úrslitaleik við Val í síðustu umferð Landsbankadeildarinnar.

 

Bikartitlar félaganna

 

KR hefur 10 sinnum orðið bikarmeistari:

 

1960, 1961, 1962, 1963, 1964, 1966, 1967, 1994, 1995 og 1999 þegar þeir

lögðu ÍA 3-1 í úrslitaleiknum. KR hefur 13 sinnum leikið til bikarúrslita.

 

Keflavík hefur þrívegis orðið bikarmeistari:

 

1975, 1997 og 2004 þegar þeir lögðu KA 3-0 í úrslitaleiknum. Keflvíkingar

hafa níu sinnum leikið til bikarúrslita.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024