Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslitastund í 2. deild
Föstudagur 18. mars 2005 kl. 11:00

Úrslitastund í 2. deild

Um helgina fer fram úrslitakeppni um sæti í 1. deild karla í körfuknattleik í Vestmannaeyjum. Suðurnesin eiga þar tvö lið, Reyni frá Sandgerði og ÍG frá Grindavík. Átta lið taka þátt í úrslitunum og eru tveir riðlar. Reynir og ÍG eru ekki saman í riðli en gætu mæst í úrslitum ef þau komast upp úr riðlum sínum.

Reynir

Nathan Harvey er stigahæstur yfir tímabilið hjá Reynismönnum með um 19 stig að meðaltali í leik og Óli Geir Jónsson með 15. Jón Guðbrandsson þjálfar Reynismenn og segir að líkurnar á að liðið komist upp um deild séu góðar ef leikmenn halda haus og komi tilbúnir í þetta og heldur að liðið fari alla leið. Reynismenn hafa þéttan mannskap og eru átta leikmenn liðsins með 10 stig eða meira að meðaltali. Breidd liðsins gæti vissulega verið mikilvæg um helgina því dagskráin er þétt og gæti endað með að liðið spili fimm leiki ef allt gengur upp á þremur dögum. Jón segir að það væri draumur að mæta ÍG í úrslitaleik og segir að það séu alltaf hörku leikir og stemmning í leikjum við þá. Reynismenn mæta með sitt sterkasta lið og fer Nathan Harvey sem hefur leikið vel í vetur með Reynismönnum með liðinu til Vestmannaeyja. Harvey er hermaður uppi á velli og segir Jón að hann passi mjög vel inn í liðið og hafi verið algjör happafengur. Reynismenn voru í 1. deild fyrir tveimur árum síðan og segir Jón það vera mjög dýrt að spila í 1. deildinni og það hafi kostað Reyni fall á sínum tíma. Hann segir félagið reynslunni ríkari nú og að það sé mikill metnaður í liðinu að vera eins ofarlega og hægt er. 

ÍG

Lið ÍG saman stendur af góðri blöndu af ungum og óreyndum leikmönnum og eldri og reyndari mönnum. Björn Steinar er stigahæstur ÍG manna með 23,5 stig að meðaltali í leik á tímabilinu, Bergvin Ólafsson með 22,8 og Árni Stefán Björnsson, spilandi þjálfari liðsins með 21,1 stig að meðaltali. Sjö leikmenn liðsins eru með 10 eða fleiri stig að meðaltali yfir tímabilið, og er líkt og Reynismenn með góða breidd. Árni Stefán Björnsson, þjálfari ÍG, segir að mannskapurinn sé spenntur fyrir helginni og að þeir ætli að fara í úrslitakeppnina til að gera sitt allra besta og eiga góðar stundir í Eyjum og um fram allt að hafa gaman af því að spila körfubolta. Árni segir að þeir muni ekki geta teflt fram sínu sterkasta liði þar sem úrslitakeppnin sé á óheppilegum tíma fyrir nokkra liðsfélaga. ÍG spilaði í 1. deildinni í fyrra og eins og Reynismenn fengu þeir að finna fyrir því hversu kostnaðarsamt það er að keppa í deildinni. Árni segir að það hafi lognast út af sjálfu sér og að félagið hafi átt í vandræðum með fjárhagshliðina. Árna þótti það áhugavert ef þeir lentu á móti Reyni í úrslitunum og kvað það ávallt vera áhugaverða og skemmtilega leiki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024