Úrslitastund hjá Grindavík
Stuðningsmenn höfðu samband við mig eftir 3-0 tapleikinn gegn KR og sögðust oft hafa séð það svartara,“ sagði Magni Fannberg Magnússon, annar þjálfara Grindavíkurliðsins í Landsbankadeildinni. Grindvíkingar þurfa að leggja Íslandsmeistara FH að velli í dag til þess að halda sér uppi í deildinni. Þá eru úrslit í öðrum leikjum einnig þáttur sem taka þarf inn í fallbaráttureikning Grindvíkinga.
„FH-ingar munu leggja jafn mikið í þenna leik og aðra, annað væri vanvirðing við knattspyrnuna. Ég hef fulla trú á því að ef við vinnum FH þá munum við halda sæti okkar í deildinni,“ sagði Magni og hafði fulla trú á því að vinur sinn Guðjón Árni Antoníusson og félagar hans í Keflavík myndu leggja Breiðablik að velli á laugardag.
Gegn KR í síðustu viku fékk varnarmaðurinn David Hannah að líta rauða spjaldið á 34. mínútu leiksins og þar með datt botninn úr leik Grindvíkinga sem lágu 3-0 á KR velli. Hannah verður því ekki með Grindvíkingum gegn FH í dag en aðrir leikmenn liðsins eru heilir og klárir í slaginn sagði Magni.
GRINDAVÍK-FH, LAUGARDAGINN 23. SEPTEMBER KL. 14:00 Á GRINDAVÍKURVELLI