Úrslitaleikur deildarkeppni kvenna í kvöld
Í kvöld kl. 20 fer fram úrslitaleikurinn í deildarkeppni 1. deildar kvenna er Keflavík mætir KR í íþróttahúsinu á Sunnubrautinni. KR-ingar felldu Keflvíkinga illilega í úrslitaleik bikarkeppninnar fyrir skömmu og hlýtur það gulklæddu að brenna í skinninu að losa sig við þá minninguna. Leikir Keflavíkur og KR hafa verið "ýkt skemmtun" síðastliðin ár enda liðin barist um titlana ár eftir ár. Beita liðin bellibrögðum á víxl eins og ráðning bandaríkjamannsins Heather Corby, rétt fyrir bikarúrslitaleikinn, ber vitni um. Keflvíkingar nutu þess ekki að hafa séð Corby spila og kom á daginn að leynivopnið bar þær á herðunum. Sportskríbent VF hvetur alla er tvo lófa hafa og haldið geta takti til að mæta og styðja Keflvíkinga í baráttunni.