Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 18. mars 1999 kl. 21:32

ÚRSLITAKEPPNIN Í KÖRFU ER HAFIN

Víkurfréttir fengu Tómas Holton, leikmann Borgnesinga og að margra áliti besta leikstjórnanda úrvalsdeildarinnar til að spá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og þjálfara Suðurnesjaliðanna til að gefa línuna á leikskipulag og áherslur liðanna gegn andstæðingunum í fyrstu umferð úrslitakepninnar. Keflavík - Haukar „Keflavík sem hefur verið á hraðri uppleið að undanförnu verður ekki í vandræðum með Hauka sem hafa verið á jafn hraðri niðurleið. Keflavík er einfaldlega með miklu betra lið og ef Haukar ætla að gefa sér einhverja von verða allir leikmenn liðsins að spila langt umfram getu. Keflavík vinnur 2 -0.„ Sigurður Ingimundarson „Við reynum að nýta okkur reynsluleysi Haukanna og leikstjórnandaleysið með því að pressa þá á framvelli og leika hratt, eins og okkur er einum lagið. Þegar stillt verður upp reynum við að koma í veg fyrir að Hairston, þeirra aðalskorari, fái mikið að moða úr, varnarmegin og nýta okkur hraðann og skytturnar sóknarmegin. Ég vill nota tækifærið og hvetja áhangendur liðsins til að fjölmenna og aðstoða okkur við að leggja Haukana og stilla strengina fyrir komandi átök.“ Njarðvík - Snæfell „Njarðvíkingar hafa verið óstöðvandi síðan þeir unnu Bikarinn og það er ekkert sem bendir til þess að þeir verði stoppaðir í bráð. Það verður hins vegar ekki auðvelt að eiga við Snæfell. Wilson verður kóngurinn í vítateignum í þessum leikjum og eins og Njarðvíkingar kynntust í tapleik í Stykkishólmi fyrr í vetur, getur Grikkin verið óstöðvandi þegar hann kemst í stuð. Lykillinnfyrir Snæfell verður að gera fá mistök í sókn og halda þannig Njarðvík frá þeirra helsta vopni, hraðaupphlaupum. Snæfell hefur enga breidd og ég held að þreyttir leikmenn liðsins verða á endanum fyrir barðinu á einhverri pressuvörninni. Eftir það verður ekki aftur snúið. Njarðvík vinnur 2 - 0.“ Friðrik Ingi Rúnarsson „Okkar styrkur er fyrst og fremst meiri breidd, meiri reynsla og meiri hefð en hjá Hólmurum. Við munum keyra upp hraðann vel meðvitaðir um það að Snæfell reynir að stjórna hraðanum. Ef við náum upp okkar sterka varnarleik komum við til með að skora auðveldar körfur og gera andstæðingnum þannig erfitt fyrir að leika hægt. Rob Wilson er sterkur leikmaður og reynslurefur auk þess sem þeir ráða yfir sterkum 3ja stiga skyttum en breidd þeirra er lítil og munum við reyna að nýta okkur það til fullnustu. “ Grindavík - KR „Þetta verða líklega skemmtilegustu leikirnir í fyrstu umferðinni. Grindavík hefur bætt við sig nýjum útlendingi (205 cm) og eru því mjög sigurstranglegir. KRingar klúðruðu í lok deildarkeppninnar heimaleikjarétti í fyrstu umferð og gætu verið að missa trúnna á eigin styrk. Ég held hins vegar að þeir nái að rífa sig upp þjappa saman vörninni sem var að vinna fyrir þá leiki í vetur. Þá held ég að koma nýja leikmannsins til Grindvíkinga beint inní fyrsta leik í úrslitakeppni eigi eftir að hafa truflandi áhrif á liðið þannig að hinir leikmennirnir nái ekki að sýna sitt besta. Þrír jafnir leikir en Vassel verður óstöðvandi og KR vinnur 2 - 1.“ Einar Einarsson Þjálfari Grindvíkinga sagði markmiðið einfaldlega vera að leggja KR-inga og koma Ástralans Paul Denmans styrkti liðið til þess verkefnis. „Paul kann augsýnilega körfubolta og hefur gengið vel að koma honum inn í leikskipulag liðsins. Hann er í toppformi og hefur aðlagað sig hröðum leikstíl liðsins. Við spilum áfram þennan hraða Suðurnesjabolta sem hefur reynst okkur vel í vetur. Tilkoma Pauls kemur til með að leyfa okkur að pressa meira út á kantana í vörninni og mögulega taka meiri áhættu. Í sókninni leitum við meira í teiginn en áður og látum reyna á styrk okkar þar. Andstæðingarnir eru erfiðir og skemmtileg barátta framundan. Keith Vassel er þeirra aðalskorari og frákastari, auk þess sem hann þjálfar liðið, og munum við reyna að koma í veg fyrir að hann nái að stjórna leiknum úr vítateignum. Mjög mikilvægt er að sigra í fyrsta leiknum og er ég viss um að Grindvíkinga fylla húsið, þeir mæta alltaf og styðja sitt lið þegar það skiptir máli.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024