Fimmtudagur 22. mars 2007 kl. 13:40
Úrslitakeppnin hefst í kvöld
Í kvöld hefst úrslitakeppnin í
Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik og leika fjögur lið í keppninni. Grindavík og Keflavík eigast við í Suðurnesjaslag en Íslandsmeistarar Hauka mæta ÍS. Þau lið sem fyrst vinna þrjá leiki í seríunni komast áfram í úrslit. Báðir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 en sama staða var uppi í fyrra í úrslitakeppni kvenna og að loknum undanúrslitum mættust svo Keflavík og Haukar þar sem Hafnarfjarðarkonur sópuðu Keflavík inn í sumarið. Verður úrslitakeppnin endurtekin í ár eða tekst liðunum að brjótast undan ægisvaldi Hauka sem um þessar mundir eru titilhafar allra titla sem í boði eru á vegum Körfuknattleikssambands Íslands.
Haukar eru Íslandsmeistarar, Bikarmeistarar, Powerademeistarar, meistarar meistarnna og deildarmeistarar og þá má einnig tína til að félagið er bikarmeistari í öllum kvennaflokkum sem keppt er í og sannarlega einstakur árangur hjá Haukum. Fyrirfram þykir nokkuð víst að Haukar fari auðveldlega í gegnum ÍS en Haukar unnu alla fjóra deildarleiki liðanna í vetur. Spurningin er hvort Haukar mæti Keflavík eða Grindavík í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.
Grindavík og Keflavík hafa eldað saman grátt silfur á þessari leiktíð. Fyrsti leikur liðanna í deildinni var þann 25. október þar sem Keflavík hafði sigur í Röstinni 69-72. Liðin mættust svo öðru sinni í Sláturhúsinu í Keflavík þar sem heimakonur fóru með stórsigur af hólmi 122-96. Grindvíkingar náðu svo að koma fram hefndum þann 17. janúar á nýju ári er þær lögðu Keflavík í Röstinni 88-82 og jöfnuðu svo metin í 2-2 í deildarleikjum þegar liðin mættust í fjórða og síðasta sinn í Keflavík. Lokatölur þess leiks voru 86-93 Grindavík í vil.
Í þessari fyrstu umferð úrslitakeppninnar hefur Keflavík heimavallarréttinn en rimmurnar geta mest farið í fimm leiki. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki í seríunni kemst áfram í úrslit og eins og áður greinir þykir það líklegast að þar bíði Haukar átekta. Haukar urðu deildarmeistarar og hafa því heimaleikjaréttinn að því gefnu að þær komist í úrslitaviðureignirnar.
[email protected]