Úrslitakeppnin hefst í kvöld - Spekingarnir spá
Úrslitakeppnin í körfuknattleik karla hefst í kvöld. Keflvíkingar, sem unnu deildarkeppnina munu mæta nágrönnum sínum úr Grindavík í athyglisverðri rimmu í átta liða úrslitunum í kvöld klukkan 19:15 og Njarðvíkingar fá ÍR-inga í heimsókn á morgun klukkan 19:15. Víkurfréttir fengu gamlar kempur til að spá fyrir úrslitum í rimmunum.
Keflavík - UMFG 2-0 Maður ætti að halda að Keflvíkingarnir ættu að taka þetta án þess að tapa, miðað við gengið í vetur. Það stemmir Grindvíkinga eflaust að Helgi Jónas er að koma til baka en hann er bara ekki í leikformi strákurinn. Ég met það svo að Keflvíkingar taki þá 2-0 þó svo Grindvíkingar séu með ágætis mannskap. Í versta falli tapa Keflvíkingar útileiknum en mín spá er að Keflavík vinnur þá 2-0.
Njarðvík - ÍR 2-1 Þetta er náttúrulega alveg út í bláinn af því að það eru nýir kanar hjá Njarðvík, en ég held nú samt að það sé styrkleika munur þarna á og Njarðvík hefur ansi góðan hóp og ef að þeir eru þokkalega heppnir með kana og þeir nái að smella fljótlega við leik Njarðvíkur þá eiga þeir að taka þetta. ÍR-ingarnir gætu strítt þeim aðeins en ég skýt á 2-1 fyrir Njarðvík og þeir vinni báða sína heimaleiki.
Teitur Örlygsson:
Keflavík - UMFG 2-1 Þetta er mjög athyglisverður leikur, nú er engin pressa á Grindvíkingum þannig að þeir geta mætt alveg afslappaðir í leikinn og enginn býst við neinu af þeim sem ég held að sé ágætt í stöðunni fyrir þá. Innst inni held ég að þeir hafi alveg trú á því að þeir geti unnið Keflavík. Ef Helgi verður heill getur hann hjálpað þeim mikið, hann er gríðarlega sterkur varnarmaður. Páll Axel og Helgi þekkjast mjög vel og geta gert Keflvíkingum erfitt fyrir og svo veitir það liðinu sjálfstraust að hafa Helga. Keflavík er hinsvegar sigurstranglegri og ég spái hörku leikjum og að rimman fari í þrjá leiki og Keflvíkingar vinni báða sína heimaleiki og komist áfram 2-1.
Njarðvík - ÍR 2-0 Þetta á ekki að vera nein spurning ef maður horfir á mannskap beggja liða. Njarðvíkingar eru með töluvert sterkara lið alveg sama hvernig Bandaríkjamennirnir spila. Það hefur vantað smá uppá hjá þeim langtímum saman í vetur, þeir hafa verið að spila undir getu. Ég sá glitta í gamla takta hjá sumum leikmönnum í síðasta leik og þeir stigu upp við meiri ábyrgð. Svo er spurning hvaða áhrif nýju Bandaríkjamennirnir hafa á liðið, það er lítill tími fyrir leikmenn að kynnast í úrslitakeppninni. Ég hefði persónulega viljað taka bara einn leikmann, tveir kanar eru of mikil breyting fyrir liðið, það þurfa allir að aðlagast tveimur leikmönnum í stað þess að einn leikmaður aðlagist liðinu. Ég hugsa að Njarðvíkingarnir taki þetta enga að síður auðveldlega.
Guðmundur Bragason:
Keflavík - UMFG 1-2 Þetta verður hörku rimma, ég trúi ekki öðru en að Grindavík fari að hysja upp um sig brækurnar, þetta er búið að vera ótrúlega dapurt hjá þeim í vetur. Ég held að þetta endi í oddaleik og það er erfitt að segja hvernig hann fer, en ég spái því að Grindavík taki þetta í oddaleik.
Njarðvík - ÍR 2-0 Ég held að Njarðvík taki það, þeir eru of sterkir fyrir ÍR-ingana hvort sem nýju kanarnir plummi sig eða ekki þá hafa þeir bara einfaldlega það góðan mannskap. Það verður þó hörku leikur í Seljaskóla en Njarðvík klárar þetta 2-0.