Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna hefst í kvöld
Mikið mun mæða á Söru Rún Hinrikdóttur og félögum í kvöld
Miðvikudagur 8. apríl 2015 kl. 08:44

Úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna hefst í kvöld

Úrslitaeinvígi UMFN og Stjörnunnar um laust sæti í úrvalsdeild fer einnig af stað

Það verður nóg um að vera í kvennakörfunni á Suðurnesjum í kvöld þegar öll félög sem eiga fulltrúa í deildarkeppnum leika í úrslitakeppninni. Keflvíkingar taka á móti Haukum í TM höllinni, Grindvíkingar heimsækja deildarmeistara Snæfells í Stykkishólmi og í 1. deild kvenna hefst úrslitaeinvígi Njarðvíkur og Stjörnunnar um laust sæti í úrvalsdeild.

Keflavík og Haukar hafa skipt með sér 4 leikjum í vetur og má búast við harðri rimmu á milli þessara félaga en ekki ætti það að skemma fyrir að karlalið félaganna hafa nýlokið 5 leikja seríu svo það ætti að vera auðvelt að kynda undir eldinum. Haukakonur tefla fram einum besta leikmanni deildarinnar í Lele Hardy og alveg ljóst að Keflvíkingar þurfa að hafa sig alla við til að halda henni í skefjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar rétt höfðu það inn í úrslitakeppnina eftir brösótt gengi í vetur. Þriggja stiga sigur á Val í síðustu umferðinni varð til þess að liðið landaði 4. sæti deildarinnar og fær það erfiða hlutskipti að mæta deildarmeisturum Snæfells í fyrstu umferð.

Sverrir Þór Sverrisson sagði í samtali við Víkurfréttir að María Ben Erlingsdóttir yrði ekki með liðinu í kvöld og þá er Kristina King að eiga við hnémeiðsli en allar líkur væru á því að hún myndi harka af sér og leika með liðinu.

Sverrir Þór Sverrison, þjálfari Grindavíkur

Aðspurður um möguleika liðsins gegn sterku Snæfellsliði hafði Sverrir þetta að segja:

,,Við þurfum einfaldlega að spila hörkuvörn og berjast meira en Snæfell í 40 mínútur til að gera þetta að alvöru seríu, við erum litla liðið í þessu einvígi og við þurfum því að hitta á góða leiki og fá mikið framlag frá öllum hópnum okkar. Snæfell er frábært lið sem hefur svo marga styrkleika að það þarf að vera viðbúinn öllu frá þeim."

En hvað hefur orsakað misjafna spilamennsku liðsins i vetur?

,,Við höfum í raun aldrei náð upp stöðugleika í vetur og veit ég ekki nákvæmlega ástæðuna fyrir því, höfum talað mikið um þetta og reynt að bæta það sem hefur vantað uppá á milli leikja en enn virðist liðið vera sveiflukennt, það er núna komið að síðasta sénsinum í að breyta því hjá okkur."

Úrslitaeinvígi 1. deildar kvenna hefst einnig í kvöld þegar deildarmeistarar Njarðvíkur mæta liði Stjörnunnar í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Heimastúlkur hafa einungis tapað einum leik í vetur og fóru þannig frekar auðveldlega í gegnum deildarkeppnina. Kaldhæðnislega eru karlalið félagana einnig nýbúin með 5 leikja seríu sem að fer líklega í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi. Sigra þarf tvo leiki til að vinna sér inn sæti í úrvalsdeild að ári.

Deildarmeistarar Njarðvíkur í 1. deild kvenna

Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15