Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslitakeppni kvenna hefst í kvöld
Fimmtudagur 17. mars 2005 kl. 17:01

Úrslitakeppni kvenna hefst í kvöld

Í kvöld byrjar úrslitakeppni í 1. deild kvenna. Keflvíkingar urðu deildarmeistarar og Grindvíkingar lentu í öðru sæti. Keflvíkingar taka á móti Stúdínum í Sláturhúsinu í Keflavík í kvöld og Grindvíkingar mæta bikarmeisturum Hauka í Röstinni. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19:15 í kvöld.

Bryndís Guðmundsdóttir er búin að eiga frábært tímabil í vetur þrátt fyrir ungan aldur. Hún hefur haft góða að til að hjálpa henni við að feta sín fyrstu spor í boltanum, þar sem lið Keflvíkinga býr yfir reynslumiklum leikmönnum. Hún segir liðið ætla að halda Íslandsmeistaratitlinum í Keflavík og að þær leggi allt undir í úrslitakeppninni. Að hennar mati eru Grindavík og Haukar líkleg til að gera góða hluti í úrslitakeppninni þar sem Haukar hafi verið mjög sterkar í vetur og sérstaklega eftir áramót og að Grindvíkurstúlkur gætu orðið skeinuhættar ef Rita Williams fellur vel inn í lið Grindavíkur.

Erla Þorsteinsdóttir hefur verið að glíma við erfið meiðsli bróðurpart tímabilsins og virðist ekki sjást fyrir endann á þeim að svo stöddu. Viðureignirnar gegn Haukum leggjast vel í Erlu og á hún von á hörku rimmum. Hún kvartar ekki yfir meiðslunum og ætlar sér að gera sitt besta í úrslitakeppninni. Hún segir það mikilvægt að loka á Ebony Shaw og Helenu Sverrisdóttur í leikjunum gegn Haukum. Hún telur að ef Grindvíkingar spili eins og þær hafa verið að gera undanfarið ásamt því að Rita Williams sé að komast betur inn í liðið með hverri æfingu geti þær náð góðum úrslitum. Hún segir liðið vera tilbúið að takast á við þetta verkefni og að það sé hugur og tilhlökkun hjá liðinu. Erla segir það vera drauma viðureign ef Suðurnesjaliðin mætast í úrslitum keppninnar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024