Úrslit kvöldsins í körfunni
Snæfell deildarmeistari eftir stórsigur í Grindavík
Leikjum kvöldsins í Domino´s deild kvenna er lokið þar sem að Keflavíkurstúlkur báru sigurorð af liði Vals og Snæfell tryggði sér deildarmeistaratitilinn með því að leggja Grindavík í Röstinni.
Keflvíkingar leiddu gegn Valsstúlkum mest allan leikinn í TM höllinni í kvöld þar sem að Carmen Tyson Thomas átti svakalega endurkomu í lið Keflavíkur eftir meiðsli sem hafa hrjáð hana síðan fyrir bikarúrslit. Thomas setti ein 37 stig og tók 17 fráköst sem telst sem svokölluð hákarlatvenna á fagmálinu. Þá döðruðu þær Sara Rún Hinriksdóttir (9 stig, 10 fráköst), Sandra Lind Þrastardóttir (8 stig, 15 fráköst) og Birna Valgarðsdóttir (8 stig, 11 fráköst) einnig við að ná tvennunni, þ.e. 10+ í tveimur jákvæðum tölfræðiþáttum.
Í Röstinni áttu Snæfellskonur ekki í teljandi erfiðleikum með heimalið Grindavíkur og rúlluðu nokkuð auðveldlega í gegnum þann leik. Munurinn var strax orðinn 20 stig eftir fyrsta leikhluta og alveg ljóst að heimakonur reimuðu ekki á sig keppnisskónna í kvöld. Lokatölur 60-88. Þar með er ljóst að Snæfell er deildarmeistari þar sem að Keflavík getur ekki náð þeim úr því sem komið er. Grindavík er ekki ennþá öruggt með sæti sitt í úrslitakeppninni en margt þarf að ganga úrskeiðis til að sú kúvending verði að veruleika. Verði það hlutskipti Grindvíkinga að ná fjórða sætinu er ljóst að mótherji þeirra í undanúrslitum verður einmitt lið Snæfells.
Kristina King var stigahæst Grindvíkinga í kvöld með 23 stig og þá skoraði Petrúnella Skúladóttir 9 og Ingibjörg Jakobsdóttir 8.