Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Úrslit kvöldsins í körfunni - dramatík og háspenna!
    Njarðvíkingar með Bonneau í fararbroddi leiða einvígið 1-0 VF myndir: Páll Orri
  • Úrslit kvöldsins í körfunni - dramatík og háspenna!
    Þorleifur setti 9 stig fyrir Grindavík í kvöld
Fimmtudagur 19. mars 2015 kl. 21:07

Úrslit kvöldsins í körfunni - dramatík og háspenna!

Njarðvíkursigur í framlengdum leik - Grindvíkingar börðust hetjulega við KR

Leikjum kvöldsins í úrslitakeppni Domino´s deildar karla er lokið en mikil spenna var í báðum leikjum þar sem KR-ingar lögðu Grindavík með 6 stigum í Vesturbænum, 71-65. Í Ljónagryfjunni í Njarðvík var boðið uppá framlengdan háspennuleik þar sem að heimamenn náðu 1-0 forystu í einvíginu með því að leggja Stjörnuna 

Í DHL höllinni var ekki ýkja margt sem benti til þess að Grindvíkingar ætluðu að veita Íslandsmeisturunum einhverja mótspyrnu þar sem að munurinn var kominn í 19 stig, 47-28, snemma í 3. leikhluta Sóknarleikur Grindvíkinga var afleitur á löngum köflum og gátu gulklæddir ekki keypt sér körfur þótt þær hefðu verið til sölu. Grindvíkingar sýndu þó ágæta varnartilburði í seinni hálfleik og með baráttu að vopni minnkaði bilið hægt og rólega.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Michael Craion þurfti að yfirgefa völlinn með 5 villur þegar 4 mínútur voru eftir var spennustigið í húsinu orðið ansi hátt og Grindvíkingar gerðu harða atlögu að því að stela sigri. Minnst komst munurinn niður í 2 stig en KR-ingar geta þakkað reynsluboltanum Helga Má Magnússyni fyrir frábæran lokakafla sinn sem að tryggði heimamönnum sigur.

Grindvíkingar léku án Ólafs Ólafssonar sem að enn hefur ekki jafnað sig á lungnabólgu þrátt fyrir að talið hafði verið að hann myndi leika í dag og munar um minna. Allt of fáir lykilmenn léku á parinu í dag og ljóst að Grindvíkingar eiga talsvert inni sóknarlega. Baráttan í seinni hálfleik var þó til fyrirmyndar.

Rodney Alexander var langatkæðamestur Grindvíkinga í kvöld með 24 stig og 18 fráköst en næstur honum komu Þorsteinn Finnbogason með 10 stig og Þorleifur Ólafsson 9 stig.

Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson stigahæstur með 19 stig, Helgi Magnússon skoraði 17 stig og tók 8 fráköst og þá var Michael Craion með 16 stig og 9 fráköst.

Liðin mætast öðru sinni í Röstinni á sunnudagskvöldið.

Í Njarðvík var von á miklum baráttuleik og ollu liðin áhorfendum ekki vonbrigðum. Stjarnan leiddi með nokkrum stigum í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar tóku við keflinu þeim síðari og leiddu inn í 4. leikhluta en þá varð allt stál í stál og liðin skiptust á að hafa forystuna.

Þegar 3 sekúndur lifðu leiks var brotið á Degi Kár Jónssyni í þriggja stiga skoti. Dagur setti niður fyrstu tvö vítin en misnotaði það þriðja viljandi. Frákastið hrökk til Jóns Orra Kristjánssonar sem að jafnaði með sniðskoti um leið og leikklukkann gall. Ótrúleg atburðarás!

Í framlenginunni voru heimamenn sterkari með þá Loga Gunnarsson og Stefan Bonneau fremsta í flokki. Sætur sigur í höfn hjá Njarðvík sem að virtust ætla að missa unninn leik úr höndunum. 

Stefan Bonneau var einu sinni sem oftar atkvæðamestur hjá heimamönnum þótt hann skilað ,,einungis" 30 stigum í hús. Logi Gunnarsson var Stjörnumönnum einnig erfiður ljár í þúfu og setti 19 stig, þar af þriggja stiga körfuna sem gerði nánast úti um leikinn í framlengingunni. Þá er vert að minnast á góða kafla hjá Ágústi Orrasyn og Mirko Virijevic sem að skiluðu 11 stigum hvor.

Annar leikurinn í einvígi liðanna fer fram á sunnudagskvöldið í Stjörnuheimilinu.

Nánar má lesa um leikina á heimasíðu karfan.is

Myndir frá leik Njarðvíkur og Stjörnunnar má sjá hér að neðan