Úrslit jólamóts Sleipnis og afreksmanneskjur heiðraðar
Skömmu fyrir jól hélt glímudeild Njarðvíkur júdómót fyrir alla aldursflokka. Í yngsta flokkum voru allir sigurvegarar enda stóðu allir sig ótrúlega vel. Öll börnin voru leyst út með gjöfum og verðlaunaskjölum þar sem verðlaunað var fyrir átta gildi deildarinnar, þ.e. hugrekki, hjálpsemi, hæversku, sjálfsstórn, vinskap, heiðarleika, kurteisi og virðingu.
Í opnum flokki unglinga sigraði Jóhannes Reykdal Pálsson, í öðru sæti jafnir að stigum urðu Keeghan Freyr Kristinsson, Helgi Þór Guðmundsson og Magnús Alexander Einarsson. Allar viðureignirnar í flokknum voru geysispennandi og jafnar. Jóhannes var sá eini sem sigraði allar viðureignir en hann þurfti að hafa mikið fyrir þeim.
Í lok mótsins voru veittar viðurkenningar fyrir afrek ársins.
Brasilian Jiu Jitsu-kona ársins var Anna Soffía Víkingsdóttir.
Brazilian Jiu Jitsu-maður ársins var Guðmundur Sigurfinnson.
Efnilegasta Jiu Jitsu-manneskja deildarinnar var Rinesa Sopi.
Heimsmeistarinn Heiðrún Fjóla Reykdal Pálsdóttir hlaut titilinn glímukona ársins og bróðir hennar, Jóhannes Reykdal Pálsson, var svo kjörinn glímumaður ársins en systkinin voru einnig valin júdókona og júdómaður ársins. Lena Andrejnko var valin efnilegasta glímukona ársins og Mariam Badawy efnilegasta júdókonan.