Úrslit í Skólahreysti í kvöld
Suðurnesjaskólar unnið frá 2011
Úrslit Skólahreysti fara fram í Laugardalshöll í kvöld, en þar etja grunnskólar landsins kappi í hinum ýmsu þrekgreinum. Þar eru tveir Suðurnesjaskólar meðal þeirra 12 skóla sem freista þess að fagna sigri. Holtaskóli sem á titil að verja, en skólinn hefur í raun sigrað fjórum sinnum á síðustu fimm árum. Skólar af Suðurnesjum hafa svo sigrað í keppninni síðan árið 2011.
Stóru-Vogaskóli mætir í fyrsta sinn til úrslita en liðið hafnaði í öðru sæti í suðurriðlinum. Skólinn var með flest stig að öllum skólum sem höfnuðu í öðru sæti og komst fyrir vikið í úrslitin.
Fyrir Holtaskóla keppa þau Elsa Albertsdóttir og Stefán Pétursson í hraðaþraut, Katla Björk Ketilsdóttir tekur armbeygjur og hreystigreip og Halldór Berg Halldórsson tekur upphífingar og dýfur.
Fyrir Stóru-Vogaskóla keppa þau Eydís Ósk Símonardóttir og Gunnlaugur Atli Kristinsson í hraðaþraut, Helena Gísladóttir tekur armbeygjur og hreystigreip og Phatsakorn Lomain (Nikki) tekur upphífingar og dýfur.
Keppnisgreinarnar í Skólahreysti eru armbeygjur, dýfur, hreystigreip, upphífingar og hraðaþraut. Stúlkurnar keppa í armbeygjum og hreystigreip en drengir í upphífingum og dýfum. Tveggja manna lið keppa í hraðaþraut. Landsbankinn veitir nemendafélögum þriggja efstu skólanna vegleg peningaverðlaun. Keppendur í þremur efstu sætum fá einnig sérstök verðlaun.
Keppnin hefst klukkan 20:00 og verður að venju í beinni útsendingu á RÚV.