Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úrslit helgarinnar: Wolfbauer tryggði Keflavík sigur
Madison Elise Wolfbauer skoraði eina markið í sigri Keflavíkur á Þrótti. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 21. ágúst 2023 kl. 10:39

Úrslit helgarinnar: Wolfbauer tryggði Keflavík sigur

Keflavík vann góðan sigur á Þrótti í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær en á sama tíma tapaði karlaliðið fyrir Blikum í Bestu deild karla. Bæði lið eru í fallsæti en kvennallið Keflavíkur er aðeins einu stigi á eftir ÍBV og Tindastóli á meðan staða karlaliðsins er öllu verri en Keflvíkingar eru í neðsta sæti Bestu deildar karla, sjö stigum frá öruggu sæti.

Í Lengjudeild karla stöðvaði topplið Aftureldingar sigurgöngu Njarðvíkinga en Reynir og Víðir unnu sína leiki í toppbaráttu 3. deildar. Þróttur fór fýluferð til Dalvíkur og færist niður í fimmta sæti 2. deildar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík tapaði fyrir Gróttu í Lengjudeild kvenna í leik þar sem miklar sviptingar áttu sér stað á skömmum tíma. Karlalið Grindavíkur mætir Fjölni á útivelli í kvöld í átjándu umferð Lengjudeildar karla.

Keflavík - Þróttur 1:0

Keflvíkingar löguðu stöðu sína í botnbaráttu Bestu deildar kvenna þegar liðið tók á móti Þrótti á HS Orkuvellinum í gær.

Rendeiro lék vel í gær. Hér sendir hún boltann fyrir mark gestanna og upp úr því skoraði Wolfbauer sigurmarkið.

Keflvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og sóttu fast á gestina. Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 36. mínútu þegar Melanie Claire Rendeiro lék inn í teiginn og sendi fastan bolta fyrir markið þar sem Madison Wolfbauer áframsendi hann í netið.

Eftir markið fóru Þróttarar smám saman að ná tökum á leiknum og sækja en vörn Keflavíkur var föst fyrir og neitaði þeim um jöfnunarmark.


Breiðablik - Keflavík 2:1

Stefan Ljubicic skoraði mark Keflavíkur en það dugði ekki til.

Eftir að hafa gert jafntefli við Val í síðustu umferð mætti Keflavík Breiðabliki í Bestu deild karla í gær. Þegar upp var staðið reyndust Blikar of sterkir fyrir Keflvíkinga sem töpuðu með einu marki.

Blikar komust yfir á 30. mínútu með marki frá Ágústi Eðvald Hlynssyni en Stefan Alexander Ljubicic jafnaði eftir langt innkast frá Gunnlaugi Fannari Guðmundssyni, Magnús Þór Magnússon skallaði innkastið aftur fyrir sig þar sem Stefan skallaði hann í netið (33').

Heimamenn í Breiðabliki réðu lögum og lofum í seinni hálfleik og Mathias Rosenorn átti stórleik í marki Keflavíkur og þurfti margoft að taka á honum stóra sínum til að koma í veg fyrir mark.

Ágúst Eðvald skoraði aftur á 66. mínútu eftir þunga sókn sem Keflvíkingum tókst ekki að bægja frá og Blikar fögnuðu sanngjörnum sigri að lokum.


Njarðvík - Afturelding 1:2

Oumar Diouck og Rafel Victor mynda hættulegt teymi í framlínu Njarðvíkur en Diouck skoraði mark Njarðvíkinga úr vítaspyrnu eftir brot á Victor.

Eftir fjóra sigurleiki í röð undir stjórn Gunnars Heiðars Þorvaldssonar kom að því að sigurhrina Njarðvíkinga tæki enda. Efsta lið Lengjudeildarinnar, Afturelding, sá til þess.

Hvorugt lið náði að sýna sínar bestu hliðar í leiknum en þau áttu sín „móment“. Gestirnir komust yfir á 16. mínútu en fimm mínútum síðar var brotið á Rafael Victor inni í teig Aftureldingar og vítaspyrna dæmd. Oumar Diouck steig á punktinn og skoraði af öryggi (21'), hans níunda mark í sumar.

Staðan var jöfn í hálfleik og hélst jöfn þar til undir lok leiksins. Njarðvík var í sókn en eftir slæma sendingu beint í fæturna á varnarmanni gestanna héldu þeir í sóknina. Afturelding lék upp hægri kantinn og sendu langa sendingu á fjærstöngina þar sem tveir sóknarmenn náðu að stinga sér inn fyrir vörn heimamanna. Annar þeirra náði boltanum út við endamörk og skoraði sigurmarkið úr þröngu færi (88').

Þrátt fyrir tapið eru Njarðvíkingar í níunda sæti og því ekki í fallsæti. Grindavík er í sjöunda sæti en á leik til góða gegn Fjölni sem fer fram í Grafarvogi í kvöld.

Leik Njarðvíkur og Aftureldingar má sjá í spilaranum neðar á síðunni.


Grindavík - Grótta 3:5

Búið að fella Jasmine Aiyana Colbert í teig Gróttu og vítaspyrna dæmd. Mynd/Petra Rós Ólafsdóttir

Það urðu miklar vendingar leikn Grindavíkur og Gróttu í Lengjudeild kvenna fyrir helgi. Grindavík komst yfir með marki úr vítaspyrnu (Jasmine Aiyana Colbert, 17') en Grótta jafnaði stuttu fyrir hálfleik (41').

Jasmine Colbert bætti við öðru marki Grindvíkinga tveimur mínutum síðar (43') en í uppbótartíma fékk Grótta tvær vítaspyrnur með rúmlega mínútu millibili (45'+2 og 45'+4) og sneri dæminu sér í hag.

Grótta jók muninn í 5:2 í seinni hálfleik áður en Ragnheiður Tinna Hjaltalín minnkaði muninn í 5:3 sem urðu lokatölur leiksins.

Grindavík er um miðja deild, í sjötta sæti, með 22 stig en ljóst er að KR og Augnablik eru fallin.


Dalvík/Reynir - Þróttur 3:1

Brynjar Gestsson, þjálfari Þróttar, hefur sennilega ekki verið svona ánægður með sína menn í leikslok.

Þróttarar hafa átt grisjóttu gengi að fagna í sumar og eru komnir í fimmta sæti 2. deildar karla eftir tap á Dalvík í gær.

Jóhann Þór Arnarsson kom Þrótti yfir á 21. mínútu og tveimur mínútum síðar missti Dalvík/Reynir mann af velli með rautt spjald.

Þrátt fyrir að vera manni fleiri og marki yfir misstu Þróttarar leikinn frá sér og heimamenn skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleik (72', 83' og 88').


Hvíti riddarinn - Reynir 0:4

Zmarzlik sækir hér að marki Víðis í leik liðanna fyrr í sumar.

Reynismenn halda uppteknum hætti og vinna sína leiki. Reynir hefur þriggja stiga forskot á toppi 3. deildar karla en Kormákur/Hvöt fylgir fast á hæla þeirra. Kormákur/Hvöt mætir til Sandgerðis á fimmtudaginn og þá geta Reynismenn gert grönnum sínum í Víði góðan greiða með sigri en Víðir er skammt undan í fjórða sæti.

Leonard Adam Zmarzlik setti mark sitt á leikinn en í fyrri hálfleik skoraði hann hat trick, eða þrjú mörk í röð (8', 18' og 27'). Magnús Magnússon gulltryggði svo sigurinn með fjórða marki Víðis í upphafi seinni hálfleiks (48').


Víðir - Augnablik 2:0

Helgi Þór Jónsson skoraði bæði mörk Víðis.

Víðismenn halda ennþá í vonina um sæti í 2. deild að ári eftir góðan sigur á Augnabliki í 3. deild karla í gær.

Helgi Þór Jónsson var hetja Víðis en hann skoraði bæði mörkin (37' og 64'). Víðismenn eru sex stigum á eftir Kormáki/Hvöt en Víðir mætir ÍH í næstu umferð.

Njarðvík - Afturelding 1:2

Keflavík - Þróttur (1:0) | Besta deild kvenna 20. ágúst 2023