Úrslit dagsins í Lengjubikarnum
Grindavík skoraði 6 gegn Þór - Keflavík lá gegn Skaganum
Grindvíkingar áttu ekki í teljandi vandræðum með Þór frá Akureyri þegar liðin mættust í Lengjubikarnum í dag en Grindavík rótburstaði norðanmenn 2-6.
Grindvíkingar gerðu úti um leikinn á 25 mínútna kafla í fyrri hálfleik þegar þeir röðuðu inn fjórum mörkum frá 19. til 44. mínútu. Óli Baldur Bjarnason, Magnús Björgvinsson, Alex Freyr Hilmarsson og sjálfsmark Akureyringa voru skráð fyrir mörkum Grindvíkinga.
Ef að þetta var ekki nóg þá slökkti Scott Ramsey í öllum ljóstærum sem eftir lifðu með fimmta markinu á 71. mínútu. Þórsarar réttu aðeins úr kútnum með tveimur mörkum áður en Ivan Jugovic innsiglaði 2-6 sigur með marki á 89. mínútu.
Grindvíkingar eru að rétta úr kútnum eftir erfiða byrjun í Lengjubikarnum og hafa nú unnið tvo síðustu leiki sína og hoppa upp í 3. sæti riðilsins með 6 stig.
Næst leika Grindvíkingar við lið Fjarðarbyggðar þann 27. mars í Akraneshöllinni.
Aðra sögu er að segja af Keflvíkingum sem sóttu ekki gull í greipar toppliðs ÍA þegar liðin mættust í Akraneshöllinni fyrr í dag en heimamenn fóru með 2-1 sigur af hólmi.
Skagamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins á fyrstu 12 mínútum leiksins. Leonard Sigurðsson minnkaði svo muninn fyrir Keflavík á 19. mínútu og hélst staðan þannig út fyrri hálfleikinn.
Keflvíkingar fóru svo illa að ráði sínu í byrjun síðari hálfleiks þegar þeir misnotuðu vítaspyrnu sem að markvörður ÍA, Árni Snær Ólafsson, varði.
Heimamenn héldu út og tróna nú efstir á toppi riðilsins með 15 stig en Keflvíkingar hafa nú tapað tveimur leikjum í röð og sigla lygnan sjó í þriðja sæti með 7 stig.
Keflavík leikur næst gegn Stjörnunni í Reykjaneshöll þann 28. mars.