Úrræðalausir Keflvíkingar töpuðu stórt
Keflvíkingar söknuðu fyrirliða síns í kvöld þegar Þór Þorlákshöfn vann stórsigur (83:104) í Blue-höllinni í Subway-deild karla í körfuknattleik fyrr í kvöld. Með tapinu fellur Keflavík niður í þriðja sæti en Þór fer upp í áttunda sæti, upp fyrir Grindavík sem fer niður í tíunda sæti þar sem Höttur vann Stjörnuna og er komið í níunda sæti.
Það var fyrirfram vitað að leikurinn í kvöld yrði erfiður leikur enda hafa Þórsarar verið á mikilli siglingu undanfarið en einhver deyfð virðist vera yfir Keflavík sem hefur verið talið besta liðið það sem af er tímabilinu í Subway-deildinni.
Úrræðaleysið í kvöld var átakanlegt og jaðraði á köflum við áhugaleysi hjá leikmönnum. Sóknir heimamanna strönduðu of oft á baráttuglöðum gestunum en á sama tíma og ekkert gekk upp hjá Keflavík virtust Þórsarar aftur á móti geta sett boltann niður úr nánast hvaða færi sem var.
Höfuðlaus her
Það er alvarleg staða komin upp í Keflavíkurliðinu en Hörður Axel Vilhjálmsson verður frá næstu vikurnar með brotinn þumal. Ef enginn annar stígur upp og vekur liðið af þeim doða sem það virðist vera í mun úrslitakeppnin reynast þrautaganga.
Keflavík - Þór Þ. 83:104
(21:30, 23:25, 25:23, 14:26)
Keflavík: Eric Ayala 18/4 fráköst, David Okeke 18/7 fráköst, Dominykas Milka 15/15 fráköst, Igor Maric 11/4 fráköst, Valur Orri Valsson 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Ingi Styrmisson 7, Halldór Garðar Hermannsson 3, Magnús Pétursson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Sveinsson 0, Frosti Sigurðsson 0, Nikola Orelj 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá myndasafn úr leiknum neðst á síðunni.