Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Úr atvinnumennsku í körfubolta inn á knattspyrnuvöllinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 10. desember 2023 kl. 10:30

Úr atvinnumennsku í körfubolta inn á knattspyrnuvöllinn

Sonurinn hefur vakið athygli á þessu tímabili í körfunni

„Ég var ekki einu sinni byrjaður að æfa körfubolta á þeim aldri sem Arnór bjó yfir frábærri boltatækni svo jú, líklega er hann föðurbetrungur eða hið minnsta efni í slíkan,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson sem íþróttaunnendur þekkja væntanlega mest vegna körfuboltaiðkunar en bæði var Helgi frábær leikmaður, sem lék um tíma sem atvinnumaður erlendis, og hefur þjálfað í úrvalsdeild karla. Í dag er hann aðstoðarþjálfari hjá liði Álftnesinga og upplifði skrítið augnablik í annarri umferð Subway-deildarinnar þegar sonur hans, Arnór Tristan, lék á móti honum með liði Grindvíkinga.

Kannski muna ekki allir eftir Helga í fótboltabúningi en hann tók óvænt knattspyrnuskóna fram fyrir 2002 tímabilið og var einn af lykilmönnum í liði Grindvíkinga sem átti frábæran seinni helming í Íslandsmótinu það ár og endaði í þriðja sæti. Hann var svo valinn leikmaður Íslandsmótsins á körfuknattleikstímabilinu sem fylgdi í kjölfarið. Blaðamanni er til efs að þetta verði leikið eftir, að vera lykilmaður í úrvalsdeildarliði í knattspyrnu og einnig í körfuknattleiksliðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Helgi Jónas fer hér gegn Keflvíkingnum Fali Harðarsyni.

Helgi Jónas var ekki nema sextán ára þegar hann var kominn í nokkuð stórt hlutverk hjá meistaraflokki körfuknattleiksliðs Grindavíkur og 22 ára var hann kominn í atvinnumennsku. Þegar hann kom til baka úr henni þremur árum síðar var körfuboltaneistinn eiginlega slökknaður. Helgi hafði því samband við Bjarna Jóhannsson, sem þá var að þjálfa knattspyrnulið Grindavíkur í efstu deild karla, og spurði hvort hann mætti ekki mæta á æfingar. Bjarni, sem er frá Neskaupsstað eins og Helgi, hafði þjálfað Helga þar í sjötta flokki og tók honum fagnandi. „Ég hafði samband við Bjarna í lok apríl ef ég man rétt og byrjaði að æfa fótbolta í fyrsta skipti í ansi mörg ár. Liðinu gekk ekki nógu vel til að byrja með og Bjarni gerði breytingar um miðbik mótsins, færði þá Sinisa Kekic aftur í vörnina með Ólafi Erni Bjarnasyni og þá opnaðist glufa fyrir mig á miðjunni og þegar Paul McShane fór í leikbann í tíundu umferð fékk ég tækifærið. Á svipuðum tíma kom Alfreð Jóhannsson [hann þjálfaði karlalið UMFG árið 2022] inn í liðið líka en hann hafði ekki heldur æft eða spilað með liði í efstu deild. Það gerðist eitthvað hjá liðinu og við komumst á gott skrið, enduðum í þriðja sæti sem tryggði okkur sæti í Evrópukeppninni. Ég náði að leggja upp nokkur mörk þetta tímabil og ætlaði mér ekkert annað en halda áfram í fótboltanum en spilaði líka með Grindavík í körfunni þegar körfuboltatímabilið hófst haustið 2002 og var kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins. Ég náði að taka nokkrar æfingar með Lee Sharpe á undirbúningstímabilinu vorið 2003. Þessi fyrrum leikmaður Manchester United var þá nýgenginn til liðs við Grindavík en svo sleit ég vöðva í kálfa og þar sem það var vitað að ég yrði átta vikur hið minnsta að jafna mig fóru knattspyrnuskórnir endanlega upp í hillu.“

Enginn körfubolti á yngri árum

Körfubolti var ekki ofarlega í huga Helga á uppvaxtarárunum, hann ólst upp á Neskaupstað þar sem skíði voru aðalíþróttin yfir vetrarmánuðina og fótbolti á sumrin. „Ég var um ellefu ára gamall þegar við fluttum til Grindavíkur en fram að þeim tíma hafði ég æft og keppt á skíðum á veturna og spilað fótbolta á sumrin. Mér gekk vel á skíðunum og á mikið af verðlaunum fyrir árangur á þeim. Það var enginn körfubolti fyrir austan en ég man eftir mér heima með bolta að skjóta á ímyndaða körfu yfir einum dyrakarminum. Ég hélt áfram að æfa og keppa á skíðum eftir að við fluttum suður en þegar ég gat ekki lengur keppt á Andrésar andarleikunum eftir tólf ára aldurinn lagði ég keppnisskíðunum en þá var ég byrjaður að æfa körfubolta með Grindavík. Ég var nokkuð fljótur að komast upp á lagið í körfunni en ég ætlaði mér alltaf að leggja fótboltann fyrir mig. Frá því að ég var gutti á Neskaupstað stefndi ég alltaf á að komast í landsliðsúrtakið sem fór fram á hverju sumri á Laugarvatni en það klikkaði eitthvað hjá knattspyrnudeild Grindavíkur og enginn fór og á sama tíma var ég valinn í unglingalandslið í körfubolta. Ætli ég hafi ekki bara farið í smá fýlu út í fótboltann og tók þá bara ákvörðun um að einbeita mér að körfunni. Ég spilaði eitthvað með á sumrin í öðrum flokki en allur krafturinn fór í körfuna. Ég var byrjaður að spila í nokkuð stóru hlutverki með meistaraflokki Grindavíkur þegar ég var sextán ára og fór svo eitt ár í menntaskóla í Bandaríkjunum og spilaði körfu þar. Ég var 22 ára þegar ég fór í atvinnumennsku, byrjaði í Hollandi og fór svo til Belgíu, var þrjú ár úti en á síðasta árinu mínu lenti liðið mitt í fjárhagserfiðleikum og það reyndi svolítið á sálarlífið.“

Helgi spilaði eitthvað áfram með Grindavík í körfunni eftir að hann lagði fótboltaskónum endanlega en var farinn að glíma við meiðsli, m.a. í baki, og hætti eftir 2007 tímabilið. Svo ákvað hann að taka skóna fram fyrir hið fræga 2008/2009 tímabil þegar Grindavík fór í oddaleik á móti frábæru liði KR. „Ég er ekki enn hættur að spá í hvað hefði gerst ef ég hefði tekið þriggja stiga skot þegar um tíu sekúndur voru eftir af leiknum. Við vorum bara einu stigi undir svo mér fannst við þurfa fá betra tækifæri en svo enduðum við á að ná ekki skoti á körfuna. Þar sem þetta var síðasti leikurinn á ferlinum á þessi pæling eflaust eftir poppa upp af og til, hvað hefði gerst ef ég hefði skotið?“ spyr Helgi.

Íslandsmeistarar Grindavíkur árið 1996.

Þjálfarinn Helgi

Helgi Jónas tók svo við þjálfun Grindavíkurliðsins í körfu og náði góðum árangri. „Ég tók við Grindavíkurliðinu haustið 2010, okkur gekk ekki nógu vel en komumst þó í bikarúrslit þar sem við töpuðum fyrir KR. Eftir það gerði ég breytingar á liðinu, sendi Kana-bakvörðinn heim, tók Nick Bradford í staðinn, tók sjálfur fram skóna og kláraði tímabilið en við féllum því miður út í átta liða úrslitum á móti Stjörnunni sem fór alla leið í úrslit á móti KR sem vann tvöfalt þetta tímabil. Við náðum að styrkja liðið vel fyrir næsta tímabil, fengum t.d. Jóhann Árna Ólafsson frá Njarðvík og Sigurð Þorsteinsson frá Keflavík og lönduðum Íslandsmeistaratitlinum. Það var orðið mikið að gera hjá mér með Metabolic líkamsræktarstöðina mína svo ég hætti þjálfun en körfuboltataugin er alltaf sterk í mér. Mér bauðst að taka við Keflavíkurliðinu árið 2014 en lenti í vandræðum með hjartað í mér og þurfti því að hægja á og segja skilið við Keflavíkurliðið. Ég veit ekki hvort ég hafi áhuga á að taka aftur við sem aðalþjálfari, þetta er mikill streituvaldur og það fer mikill tími í þetta. Kannski hentar mér núverandi staða best, að vera aðstoðarþjálfari, en mér bauðst það hjá nýliðum Álftnesinga fyrir þetta tímabil. Okkur hefur gengið ágætlega en ég viðurkenni fúslega að það var skrítið að vera þjálfa á móti Arnóri syni mínum í annarri umferðinni, bæði vildi ég að honum gengi vel en vildi sigurinn að sjálfsögðu meira,“ sagði Helgi.

Arnór Tristan gerir það sem föður hans tókst aldrei í leik – að troða.

Föðurbetrungur?

Sonur Helga Jónasar, Arnór Tristan, hefur vakið verðskuldaða athygli með Grindavíkurliðinu í haust. Liðið var ekki fullmótað í byrjun tímabils auk þess sem meiðsl voru að hrjá lykilleikmenn en Arnóri hefur vaxið ásmegin með hverjum leiknum af fætur öðrum. Troðslur hans hafa vakið mikla kæti grindvískra stuðningsmanna og mátti halda að þakið væri að rifna af HS Orku-höllinni í leik á móti Tindastóli áður en skjálftahrinan hófst í Grindavík. „Ég er búinn að spila í öllum leikjunum á þessu tímabili og sjálfstraustið hefur aukist með hverjum leiknum. Ég viðurkenni að það var gaman að ná þessum troðslum og heyra fagnaðarlætin en ég vil frekar að liðið vinni heldur en að ég nái að troða. Ég reyni að gera það sem ég get til að hjálpa liðinu, það er hægt að gera það á fleiri vegu en skora. Mitt markmið er að komast í atvinnumennsku en ég er bara sextán ára og hef nægan tíma til stefnu. Ég held að ég muni reyna komast í háskólaboltann, ég hef þó ekki möguleika á því fyrr en eftir nokkur ár svo vonandi get ég þróað minn leik áfram hér á Íslandi. Það er frábært tækifæri fyrir mig að hafa pabba með mér, ég veit að ég get bætt minn leik mikið með hann mér við hlið, sama hvort um er að ræða tækniþjálfun í körfubolta, styrktarþjálfun eða andlega hlutann. Ef ég er tilbúinn að leggja á mig veit ég að hann mun aðstoða mig,“ segir Arnór Tristan.

Hvað segir Helgi Jónas, er sonurinn orðinn föðurbetrungur?

„Það er góð spurning. Arnór spilaði eitthvað í fyrra með meistaraflokki þegar hann var sextán ára en á þeim aldri var ég kominn í nokkuð stórt hlutverk hjá Grindavík. Hins vegar hefur hann talsverða líkamlega yfirburði umfram mig því hann er mun hávaxnari auk þess sem hann getur hoppað út úr íþróttahúsinu. Ég náði aldrei að troða í leik en gerði það oft í upphitun! Svo má ekki gleyma því að ég vissi varla hvernig körfubolti leit út áður en ég flutti til Grindavíkur en á þeim aldri var Arnór kominn með mjög góða boltatækni, bæði með hægri og vinstri. Hann hefur stækkað gríðarlega á undanförnum árum og er mjög athyglisvert að sjá myndir af okkur sem voru teknar í ágúst og október árið 2021. Arnór er orðinn um 1,96 metrar að hæð og á hugsanlega eftir að stækka meira, það er mjög góð hæð fyrir bakvörð. Hann hefur spilað sem leikstjórnandi í gegnum alla yngri flokkana en hefur ekki spilað þá stöðu hjá meistaraflokki til þessa. Hann er með gott skot, ef hann er tilbúinn að leggja á sig það sem þarf og sleppur við meiðsli er þakið hans mun hærra en mitt var á hans aldri. Eigum við ekki alla vega að segja að Arnór sé gott efni í föðurbetrung? Ég vona alla vega að hann verði betri en ég var og er í raun sannfærður um að svo verði,“ sagði Helgi Jónas að lokum.