Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Uppsögn Milka dregin til baka
Dominykas Milka og Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, handsala samkomulagið. Mynd af Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 22. maí 2022 kl. 13:26

Uppsögn Milka dregin til baka

Dominykas Milka mun leika áfram undir merkjum Keflavíkur og hefur uppsögn hans verið dregin til baka. Nýkjörin stjórn körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur komist að samkomulagi við Milka þess efnis að uppsögn á samningi hans verði dregin til baka og mun Milka því leika áfram í búningi Keflavíkur á næstu leiktíð hið minnsta.

„Talsverð óvissa ríkti um ástæður uppsagnarinnar þegar ný stjórn tók við stjórnartaumum hjá KKDK og var því sett í forgang að ræða við leikmanninn. Það var strax ljóst á þeim samtölum að báðir aðilar höfðu áhuga á því að halda samstarfinu áfram. Var það því sameiginleg ákvörðun nýrrar stjórnar og Dominykas Milka að uppsögnin yrði dregin til baka og Milka héldi áfram sem leikmaður Keflavíkur. Auðvitað hefur óvissan ekki verið góð, hvorki fyrir deildina né Milka sjálfan. Þykir því rétt biðja hlutaðeigandi aðila afsökunar um leið og horft er fram veginn með þau sameiginlegu markmið að gera eins vel á næsta tímabili og hugsast getur með gleði og skemmtun að vopni,“ segir á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024