Upplifun sem aldrei gleymist
- segir Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu um EM ævintýrið. Tekur nýtt skref á atvinnumannsferlinum með samningi við Rapid Vín.
„Ég er enn að ná áttum, eftir frábærar mótttökur hér heima, á Keflavíkurflugvelli, á Reykjanesbrautinni og á Arnarhóli. Þetta var alveg stórkostlegt og gaman að hafa verið þátttakandi í þessu ævintýri,“ segir Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu en hann kom með íslenska landsliðshópnum til Íslands í vikunni.
Knattspyrnumaðurinn úr Reykjanesbæ komst í heimsfréttirnar þegar hann skoraði sigurmark Íslands gegn Austurríki í riðlakeppninni á Evrópumótinu í knattspyrnu. Sigurinn fleytti Íslendingum inn í 16 liða úrslitin og mark okkar manns var skemmtilegt í blálok leiksins. Auk Arnórs voru tveir leikmenn sem ólu manninn á Suðurnesjum, Ingvar Jónsson markvörður og Alfreð Finnbogason sem lék stóran hluta af yngri flokkunum í Grindavík.
Arnór Ingvi hefur undanfarin tæp þrjú ár leikið sem atvinnumaður hjá Nörrköping í Svíþjóð og varð Svíþjóðarmeistari með þeim á síðasta ári. Hann vakti athygli fyrir frammistöðu sína og komst í landsliðshóp Íslands. Arnór ól manninn í Njarðvík og stundaði boltann með yngri flokkunum þar þangað til hann varð 15 ára en þá skipti hann yfir í Keflavík. Þar vakti hann athygli fyrir færni sína á vellinum og var meðal annars valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar fyrir þremur árum síðan. Víkurfréttir hittu kappann eftir heimkomuna og hann settist niður í skrúðgarðinum í Keflavík með Páli Ketilssyni, ritstjóra.
Hvaða væntingar varstu sjálfur með fyrir keppnina?
Ekki miklar, til dæmis að fá að spila mikið. Ég kom inn í hópinn bakdyramegin ef við getum sagt svo í lokin, eftir æfingaleikina sem við lékum í vetur og vor.
Tryggðir þú þig inn í liðið með frammistöðu þinni þar, þegar þú skoraðir mörk og þóttir standa þig vel?
Já, ég held það en svo hafði Lagerback líka fylgst með mér hjá Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á sínum heimaslóðum.
Var íslenski landsliðshópurinn bjartsýnn fyrir mótið? Nú gekk liðinu ekkert mjög vel á lokasprettinum.
Liðið hafði sýnt mjög góða frammistöðu í undankeppninni síðustu fjögur ár og þó svo það hafi ekki gengið mjög vel þarna í lokin þá var ljóst að hópurinn var mjög einbeittur um að ná góðum árangri á Evrópumótinu.
Hvað með þátt Lars í undankeppninni?
Hann átti stóran þátt í því hvaða árangur náðist. Hann er með mikla reynslu og hafði áður komist með Svía og Nígeríu á stórmót. Hann hefur upplifað þetta áður. Svo spila hans lið árangursríkan fótbolta, passífa knattspyrnu. Íslenska landsliðið spilaði ekki knattspyrnu eins og Barcelona en við náðum góðum úrslitum. Það var magnað að koma liðinu í úrslit Evrópumótsins.
En að mótinu. Fyrsti leikurinn gegn Portúgal. Það var mikilvægt að tapa ekki þeim leik?
Við vorum kannski full varkárir. Það var mikið í húfi og smá stress auðvitað í liðinu en við náðum þessu mikilvæga stigi.
Og stórstjarnan Ronaldo ekki sáttur?
Nei, hann er greinilega mjög tapsár. En svona er fótboltinn, maður vinnur ekki alltaf. Framkoma hans var ekki til fyrirmyndar. Hann er ekki í miklu uppáhaldi eftir þetta.
Svo er í raun smá svekkelsi að klára ekki sigur á móti Ungverjum í næsta leik?
Já, það var ákveðinn skellur að fá mark á okkur í lokin og okkur fannst við hafa verið rændir þessum tveimur stigum. En þetta efldi okkur fyrir leikinn á móti Austurríki.
Svo kemur stóra stundin hjá þér í þeim leik, kemur inn á fyrsta sinn í mótinu og skorar sigurmarkið. Það var eitthvað?
„Ég kem þarna inn á á sjötugustu og eitthvað mínútu og fæ höfuðhögg eftir tíu sekúndur eftir hornspyrnu þegar við skullum saman tveir. Það slapp sem betur fer, smá kúla en allt í lagi.
Svolítið svona „velkominn á EM“?
Já, það má segja það. En það var erfitt að koma inn á. Við lágum svakalega aftarlega og vörðumst en það gekk og svo var gaman að klára þetta.
Þú hljópst eins og fætur toguðu þegar Theódór hljóp upp kantinn með boltann?
Ég sá alveg hvað var að fara að gerast og hljóp eins og ég gat upp völlinn. Það var ekkert mjög flókið að ná sendingunni og koma boltanum í netið þegar hann kom fyrir.
Og tilfinningin þegar þú sást boltann í netinu?
Bara ótrúleg. Ég var svo þreyttur eftir hlaupið að ég lyfti bara höndum og fagnaði. Upplifun sem aldrei gleymist.
Þú fékkst allar myndavélalinsur heimsins á þig?
Já, og ekki minnkaði athyglin einhvern veginn með þessari lýsingu Gumma Ben sem vakti heimsathygli. En þetta var auðvitað gríðarlega mikilvægur sigur. Við vorum komnir áfram og fengum Englendinga. Jafnteflið hefði fleytt okkur áfram en þá hefðum við fengið Króata í 16 liða úrslitum. Mér fannst þeir miklu betri en Englendingar. Svo var mikilvægt að fá lengra frí eftir sigurinn á Austurríki. Ísland fékk meiri hvíld og það skipti miklu máli fyrir Englandsleikinn.
Hvaða tilfinning er það að koma inn á völlinn gegn Englandi og eiga við þessa kappa, þessar miklu stjörnur úr enska boltanum?
Það var gaman að fá að spreyta sig í Englandsleiknum. Inni á velli með stjörnum sem allir þekkja. Þetta eru stór nöfn og nokkrir sem maður hefur fylgst með í gegnum tíðina en það gleymist þegar maður kemur inn á. Ég horfði í andlitið á Chris Smalling og hugsaði með mér: Þetta er bara fótboltaleikur og ég er að fara að keppa á móti þér.
Það voru margir sem voru búnir að afskrifa okkur fyrir Englandsleikinn. Mikið rætt og ritað um það hversu mikill skandall það yrði ef litla Ísland ynni England. Pressan var þannig öll á Englendingum. Það sýndi sig svo í leiknum. Við vorum mjög einbeittir og lékum okkar besta leik. Það var smá sjokk að fá markið í blábyrjun en við náðum að svara því og bæta svo við marki. Mér fannst við einhvern veginn með þetta eftir það.
Svo kom stóri leikurinn gegn heimamönnum í 8 liða úrslitum. Það fór ekki alveg eins og við vildum?
Þetta var einhvern veginn mjög erfitt að horfa upp á þetta. Við áttum engin svör. Það gekk allt upp hjá þeim, hælsending upphafið að fyrsta markinu og augljóst víti tekið af okkur þó dómarinn hafi verið mjög nálægt. Það er ekkert hægt að gera við því. Þetta hefði verið allt öðruvísi ef við hefðum haldið þeim í tveimur mörkum í fyrri hálfleik. Einbeitingarleysi og gjafamörk gerðu út um þetta. Við sýndum þó allt annað í síðari hálfleik. Á heildina litið voru Frakkar bara of stórir fyrir okkur núna. Þeir eru með magnað lið, gríðarlega sterkt á öllum sviðum.
Meira svekktir en sáttir?
Ekkert mjög svekktir, heldur meira stoltir.
Íslenskur stuðningur var svakalegur á öllum sviðum og vakti mikla athygli.
Maður fann hversu mikill stuðningur þetta var, í öllum miðlum og á leikjunum. Þetta hafði gríðarlega mikið að segja, heyra magnaðan stuðninginn í stúkunni. Jökullinn logar, vá maður.
Fjölskylda þín kom og fylgdist með en missti af aðal leiknum þegar þú skoraðir sigurmarkið?
Já, þau komu öll í fyrstu tvo leikina en fóru svo heim til að fara með Viktor bróður minn á knattspyrnumót í Eyjum. Mamma og pabbi komu svo aftur út og sáu Englands- og Frakklandsleikinn. Þau eru búin að vera fram og til baka en þau höfðu mjög gaman af þessu.
Það er nú svolítið mál að vera knattspyrnuforeldri á Íslandi?
„Já, þau eru búin að fylgja mér frá því ég var fjögurra ára, spriklandi á æfingum og á fótboltamótum í mörg ár.
Svo var þetta með Keflavík eða Njarðvík. Þú hefur búið í Njarðvík og lékst þar í yngri flokkunum þar til þú varst 15 ára þegar þú fórst yfir í Keflavík. Náðir að leika með eldri flokkunum þar og síðan með meistaraflokki í Keflavík í efstu deild þegar atvinnumanna-kallið kom. Hvort ertu Njarðvíkingur eða Keflvíkingur?
(Hlær) Mér fannst ég ná að svara þessu vel um daginn þegar Eyþór blaðamaður VF spurði mig út í þetta. Ég er sameiningartákn Reykjanesbæjar. Punktur.
Nú ertu á leiðinni til Austurríkis eftir að hafa gert samning við hið þekkta lið Rapid Vín.
Ég er að fara þangað á næstu dögum og fyrsti leikurinn er svo 23. júlí. Þá byrjar alvaran en ég fæ smá frí næstu daga.
Hefðurðu fengið einhverja bakþanka að hafa gert þennan samning áður en það kom í ljós að þú varst valinn í landsliðshópinn? Margir ykkar hafa fengið meiri athygli fyrir góða frammistöðu.
Ég er mjög ánægður með þetta skref sem ég er að taka á ferlinum. Þetta er stór klúbbur og með mikla sögu. Ég mun fá að spila og bæta mig sem leikmann. Ef ég stend mig vel þar þá gætu komið fleiri tækifæri. Það var mjög gaman og gott hjá Nörrköping í Svíþjóð. Ég er þakklátur fyrir þau tvö og hálft ár þar og Janne Anderson, þjálfari hjálpaði mér mjög mikið.
Draumur flestra ungra knattspyrnumanna er að verða atvinnumaður. Þú áttir hann og nú hefur hann verið að rætast hjá þér með frekara framhaldi í Austurríki. Svo koma líka fleiri krónur í veskið.
Jú, þetta er draumurinn. Auðvitað get ég ekki fjallað um kaup og kjör en það er gaman að geta gert það sem manni finnst skemmtilegt og fá borgað fyrir það.
Hvernig er venjulegur dagur hjá atvinnumanni í knattspyrnu? Ekki ertu á æfingum allan daginn? Eru atvinnumenn að hugsa eitthvað um nám og frekari menntun á þeim tíma? Ferillinn getur jú klárast á stuttum tíma ef menn meiðast.
Ég var aðeins í fjarnámi en hef verið í pásu frá því. Hef svo notið þess líka að vera til. Í Svíþjóð fór ég oft með félögunum eitthvert út, á kaffihús og slíkt.
Hvað viltu segja við unga knattspyrnumenn sem dreyma eins og þú gerðir?
Það er númer eitt að æfa mjög vel og hugsa vel um sig, til dæmis hvað varðar mataræði. Svo er mjög mikilvægt að setja sér ný og fleiri markmið. Það skiptir mjög miklu máli. Ég hef gert það.
Geta Íslendingar þakkað knattspyrnuhöllunum eitthvað af þessum árangri?
Ég er eiginlega alinn upp í Reykjaneshöllinni og það er engin spurning að knattspyrnuhallir hafa haft mikið að segja þannig að Íslendingar geti æft yfir veturinn við góðar aðstæður.
Hvað þurfa Íslendingar að gera til að fylgja þessum árangri eftir? Er eitthvað sérstakt sem þú myndir nefna í þeim efnum?
Það eru margir frábærir þjálfarar á Íslandi og þeir hafa menntað sig meira á undanförnum árum. Það er líka mikilvægt að halda vel utan um unga knattspyrnumenn. Ég hef sjálfur upplifað það að vera í góðum hóp þar sem margir hættu vegna þess að var ekki haldið nógu vel utan um hópinn. Starfið í yngri flokkunum er mjög mikilvægt.
En svona í lokin Arnór. Ég get ekki sleppt þér með piparsveinaspurninguna. Þú varst eini piparsveinninn í landsliðshópnum og komst svo á lista hér heima yfir þá eftirsóttustu. Hvað geturðu sagt okkur um þetta?
Gylfi Sigurðsson félagi minn í landsliðinu kom að mér í Frakklandi og sýndi mér frétt Smartlands á mbl.is og spurði mig hvernig það væri að vera heitasti piparsveinn landsins. Ég hló auðvitað en mér var mikið strítt út af þessu og maður varð bara að taka því. Ég get þó ekki sagt að ég sé eitthvað stoltur af því að vera á þessum lista,“ sagði Arnór og brosti í kampinn.
Arnór Ingvi við komuna heim á Keflavíkurflugvelli, glaðbeittur og glæsilegur.
Sigurmarkinu góða fagnað gegn Austurríki.
Arnór Ingvi skrifaði undir samning við Rapid Vín, stærsta félag Austurríkis.
Blöð úti í heimi fjölluðu um sigur Íslands og mark Arnórs.
Arnór í Icelandair flugvélinni á leiðinni til Frakklands. Skemmtilegur texti á sætinu.