Ungur og efnilegur leikmaður til Njarðvíkinga
Njarðvíkingar ætla sér að styrkja ungt lið sitt fyrir komandi tímabil í körfunni. Félagið hefur samið við Ágúst Orrason um að leika með liðinu næstu tvö árin. Ágúst kemur frá Breiðablik þar sem hann hefur alið manninn en hann er 192 cm hár skotbakvörður og fæddur árið 1993.
Ágúst á að baki unglingalandsleiki í U15, U16 og U18 ára landsliðum Íslands. Á síðastliðnu tímabili stundaði Ágúst nám í Danmörku á haustönninni en lék svo með Breiðablik eftir áramót þar sem hann var lykilmaður í drengja- og unglingaflokki félagsins auk þess sem hann lék 9 leiki í 1. deild með meistaraflokki félagsins en hann gerði 12,9 stig í leik, tók 3,3 fráköst, gaf 1,6 stoðsendingu á rúmum 22 mínútum á leik.
Mynd af heimasíðu UMFN: Friðrik Ragnarsson, nýkjörinn formaður kkd UMFN og Ágúst Orrason undirrita og handsala samninginn.