UNGUR KEFLVÍKINGUR NORÐURLANDAMEISTARI Í KEILU
Ungur Keflvíkingur Norðurlandameistari í keiluÍ landsliðið yngstur allraReykjanesbær getur nú hreykt sér af Norðurlandameistara en Steinþór Geirdal Jóhannsson tryggði sér fyrsta sætið í tvímenningi, ásamt Hjörvari Haraldssyni á Norðurlandamóti yngri spilara í Keilu sem fram fór dagana 10.- 13. mars.Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingar vinna sigur á stórmóti í keilu en til marks um það hversu sterkt Norðurlandamótið er þá er gjarnan litið á Svía og Finna sem þær þjóðir sem helst koma á eftir Bandaríkjamönnum þegar litið er til styrkleika á heimsvísu. Steinþór lét lítið yfir árangrinum þegar blaðamaður Víkurfrétta leit til hans í foreldrahús sl. sunnudag en þess má geta að Steinþór er sonurbæjarfulltrúans Jóhanns Geirdals og ljósmóðurinnar Huldu Bjarnadóttur. Þar á bæ hefur verðlaunagripunum sem Steinþór hefur unnið til í keilu verið raðað í stóran skáp og má þar finna yfir 60 verðlaunapeninga, þar af 16 ÍSÍ peninga auk fjölda annarra gripa. Steinþór er aðeins 17 ára gamall en aldursflokkurinn sem hann keppti í nær til 18 ára aldurs. Auk þess að tryggja sér Norðurlandameistaratitilinn í tvímenningi þá varð hann í 4. sæti ásamt Matthildi Gunnarsdóttur íparakeppninni á miðvikudeginum og einnig í liði Íslands sem lenti í 4. sæti í „Baker“ á föstudeginum.Þegar kom til lokaúrslita í einmenningi á laugardeginum var Steinþór í fyrsta sæti. Hann keppti síðan til úrslita við svíann Róbert Andersen. Svíinn hafði yfirhöndina framan af og eins og Steinþór orðaði það þá þurfti hann fimm fellur til þess að tryggja sér bráðabana og það tókst. Róbert hafði þó betur í bráðabananum og Steinþór varð að láta sér nægja silfrið þrátt fyrir að hafa náð flestum fellum á mótinu auk þess að vera með hæsta meðaltalið. Þegar upp er staðið er árangur Steinþórs sá besti sem Íslendingur hefur náð á alþjóðlegu móti í keilu. Aðeins fáein stig hefði þurft til þess að koma honum á verðlaunapall í öllum fjórum flokkunum sem hann keppti í á mótinu.Steinþór byrjaði að æfa keilu haustið 1992, fyrir tilviljun að eigin sögn, og æfði hann með Keilufélagi Keflavíkur þar til í sumar. “Ég byrjaði að æfa með KR sl. haust vegna þess að keilusalnum hér var lokað tímabundið en það getur verið erfitt að missa úr svo langan tíma til æfinga. Keilulið KR er í þriðja sæti í efstu deild og komið í undanúrslit í bikarkeppninni. Mér þótti spennandi að komast í þá keppni og keppa með keilurum í fremstu röð”.Steinþór vakti mikla athygli sl. haust þegar hann varð í þriðja sæti í einmenningi í fullorðinsflokki á Íslandsmeistaramótinu, þá 16 ára gamall. Sá árangur og frammistaða hans á nýafstöðnu Norðurlandamóti varð til þess að Steinþór hefur verið valinn í karlalandslið Íslands í keilu sem taka munþátt í heimsmeistaramótinu sem haldið verður í Abu Dhabi, höfuðborg Sameinuðu furstadæmanna, nú í haust.Að sögn Steinþórs gefst lítill tími til æfinga nú þegar að keppnistímabilið stendur sem hæst. „Ég æfi yfirleitt 3-4 sinnum í viku í keilusalnum hérna heima en eins og er fæ ég mestu æfinguna í þeim keppnum sem ég hef verið að taka þátt í. Það má segja að ég hafi ekki tíma til að æfa vegna þess að ég er of upptekinn af því að keppa”.Þess má geta að Steinþór átti fyrir höndum keppni í Bakermóti kvöldið sem viðtalið var tekið og hirtu hann og félagar hans í KR þar allar viðurkenningar sem í boði voru.Steinþór stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á viðskipta- og hagfræðibraut og er á öðru ári. Hann segist líta á keiluna sem áhugamál og segist ekki vera með neina draumóra um atvinnumennsku í framtíðinni.