Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Ungur Grindvíkingur til Ipswich
Laugardagur 28. maí 2011 kl. 10:34

Ungur Grindvíkingur til Ipswich

Gunnar Þorsteinsson, 17 ára gamall leikmaður úr Grindavík, mun í næsta mánuði skrifa undir tveggja ára samning við enska 1. deildar liðið Ipswich Town. Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnari var boðið til æfinga hjá liðinu í vikutíma í vetur og í kjölfarið óskaði félagið eftir að fá hann aftur út til skoðunar og var hann hjá liðinu við æfingar á dögunum.

Gunnar hefur greinilega hrifið forráðamenn enska liðsins því þeir buðu honum samning sem hann hefur ákveðið að taka. Búið er að ganga frá öllum pappírunum og mun hann skrifa undir samning við Ipswich í lok næsta mánaðar og hefja þá um leið undirbúningstímabilið með liðinu.

Gunnar er sonur Þorsteins Gunnarssonar, formanns knattspyrnudeildar Grindavíkur og fyrrverandi markvarðar ÍBV.

Þorsteinn er harður stuðningsmaður Ipswich og það hefur Gunnar einnig verið alla sína tíð.

Gunnar lék tvo leiki með Grindavík í Pepsi-deildinni árið 2009 en hann lék einnig með liðinu á undirbúningstímabilinu í ár. Þá á hann að baki fimm leiki með U17 ára landsliði Íslands.
,,Þetta er virkilega spennandi og þetta er eitthvað sem mann hefur dreymt um að gera,“ sagði Gunnar við Morgunblaðið.