Ungu strákarnir hungraðir í tækifæri
Maciek Baginski spilar með Njarðvík í Domino’s-deild karla í körfubolta. Hann er ánægður að vera kominn aftur í liðið sem stefnir að því að mæta í alla leiki til þess að vinna. Njarðvíkingar sigruðu Val síðastliðinn fimmtudag 86-83, en þeir munu mæta Þór Akureyri í kvöld, fimmtudaginn, 9. nóvember, í Höllinni á Akureyri. Maciek spáir því að tímabilið verði mjög krefjandi, en þó skemmtilegt.
Hvernig leggst veturinn í þig?
Veturinn leggst mjög vel í mig. Það er gott að vera kominn aftur í Njarðvík og við erum með mjög spennandi lið. Það eru mörg góð lið í deildinni í vetur og þetta verður krefjandi en skemmtilegt.
Hvernig hafa æfingarnar verið hjá ykkur í undirbúningi fyrir deildina?
Undirbúnings tímabilið hefur verið ágætt. Margir komu inn frekar seint og við vorum kannski styttra komnir en önnur lið. Við erum samt búnir að vinna vel úr því og erum á fínum stað í dag.
Hvað leggið þið upp með í vetur og hver eru markmið ykkar?
Við ætlum að mæta í alla leiki til að vinna og bæta okkur jafnt og þétt yfir allt tímabilið. Markmiðin eru klárlega að gera betur en í fyrra.
Er breiddin nógu mikil hjá ykkur?
Við erum með fína breidd, átta leikmenn sem hafa spilað marga leiki í úrvalsdeild og fín reynsla þar. Svo eru nokkrir ungir strákar sem eru hungraðir að sanna sig og fá tækifæri.
Hver er skemmtilegasti/erfiðasti andstæðingurinn?
Það er alltaf mjög erfitt en skemmtilegt að kljást við Ólaf Ólafsson í Grindavík en erfiðasti andstæðingurinn undanfarið hefur verið KR liðið í heild.
Skiptir stuðningur af áhorfendapöllunum miklu máli?
Já, stuðningur skiptir alltaf miklu máli, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur sjálfa. Liðin eflast við góðan stuðning og leikirnir í heild verða bara skemmtilegri. Stuðningurinn í Njarðvík er búinn að vera mjög góður í byrjun tímabils. Vonandi heldur það áfram út tímabilið.
Áttu einhverja skemmtilega sögu af liðinu?
Ég á margar mjög skemmtilegar sögur af liðinu, en þær verða því miður að vera eftir í búningsklefanum og innan liðsins. Þær eru ekki fyrir allra eyru.