Ungt Keflavíkurlið í úrslit Lengjubikarsins
Mæta Haukum í úrslitum í C-deild bikarsins
Keflavík sigraði lið HK/Víkings 2-0 í undanúrslitum Lengjubikars kvenna á laugardaginn í Reykjaneshöll. Stelpurnar gerðu út um leikinn á fyrstu 14 mínútunum með tveimur mörkum frá markadrottningunni ungu, Sveindísi Jane Jónsdóttur. Barátta, vinnusemi og góð liðsheild var einkenni stúlknanna eftir að þær náðu þægilegu forskoti. Þrátt fyrir að HK/Víkingur hafi verið meira með boltann náðu þær aldrei að spila sig í gegnum sterka vörn Keflavíkur. Keflavíkurstúlkurnar áttu mun fleiri hættuleg færi en náðu ekki að bæta við forskotið. Sæti í úrslitaleiknum í C-deild Lengjubikarsins því tryggt þar sem leikið verður gegn Haukum n.k. fimmtudag.
Keflavíkurliðið er mjög ungt og óreynt en þær létu það ekki koma að sök gegn reynslumiklu liði HK/Víkings. Hér að neðan er nokkrar athyglisverðar tölfræði upplýsingar um liðin en heimasíða Keflavíkur greinir frá:
Meðalaldur byrjunarliðs Keflavíkur í leiknum; 17,7 ár
Meðaladlur byrjunarliðs HK/Víkings: 24,9 ár
Elsti leikmaðurinn í byrjunarliði Keflavíkur: 22 ára
Elsti leikmaðurinn í byrjunarliði HK/Víkings: 32 ára
Yngsti leikmaðurinn í byrjunarliði Keflavíkur: tvær 15 ára
Yngsti leikmaðurinn í byrjunarliði HK/Víkings: 17 ára
Heildar leikjafjöldi byrjunarliðs Keflavíkur í Pepsi deild (efstu deild): 0
Heildar leikjafjöldi byrjunarliðs HK/Víkings í Pepsi deild (efstu deild): 476 leikir (102 mörk)