Ungmennum af Suðurnesjum boðin þátttaka
Um þrjú þúsund norræn ungmenni munu taka þátt í æskulýðsmóti í Reykjavík 21. til 28. júní nk., hinu fyrsta sinnar tegundar sem fram fer hérlendis. Mótið ber yfirskriftina Kultur og ungdom eða Menning og æska. Ungmennum af Suðurnesjum gefst kostur á að taka þátt í mótinu en umsóknarfrestur rennur út 10. júní.Laugardalurinn verður miðstöð mótsins í Reykjavík, en dagskrá þess verður viðamikil og fer að mestu fram í höfuðborginni. Má þar m.a. nefna glæsilega setningarhátíð, tónleika, ljósmyndamaraþon, fatahönnunarkeppni, Jónsmessuhlaup og margt fleira. Þátttakendur munu borða flestar máltíðir á Broadway sem verður stærsta mötuneyti landsins þessa daga. Norrænu ungmennin fara í dagsferð um Suðurland og skoða m.a. Þingvelli, Gullfoss og Geysi, planta trjám í Aratungu og taka þátt í unglingahátíð á Selfossi í lok dags.Ungmennafélag Íslands ber ábyrgð á framkvæmd æskulýðsmótsins, en það nýtur til þess stuðnings íslenska ríkisins, Reykjavíkurborgar, Norrænu ráðherranefndarinnar og ýmissa stofnana og fyrirtækja.Þetta er einstakt tækifæri fyrir unga Íslendinga að kynnast jafnöldrum sínum frá hinum Norðurlöndunum. Umsóknarfrestur er til 10.júni. Frekari upplýsingar veitir Einar Haraldsson í s. 421-3044 eða 897-5204, netfang: [email protected] eðaLene Hjaltason UMFÍ s. 568-2929.