Unglingastarfið eflt hjá Reyni
Knattspyrnuráð Reynis hefur á undanförnu skoðað þann möguleika að hefja aftur starf með 2. flokki karla í knattspyrnu. Fyrir utan að hafa spilað árið 2007 undir merkjum Grindavík/Reynir spilaði Reynir Sandgerði síðast á Íslandsmóti með 2. flokk árið 2003 eða fyrir sex árum.
Þetta er aðeins einn liður í því uppbyggingarstarfi sem félagið er í, segir á heimasíðu félagsins. Búið er að ráða Sinisa Valdminar Kekic sem þjálfara. Knattspyrnuráðið er í frekari undirbúningsvinnu fyrir æfingarnar sem hefjast í vetur. Innan tíðar verður sett á heimasíðu félagsins æfingatafla ásamt frekari upplýsingum um 2. flokk. Hvetur knattspyrnuráð alla drengi í Sandgerði á aldrinum 17-20 ára að taka þátt í þessu skemmtilega starfi.