Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ungir knattspyrnusnillingar á KFC-móti
Föstudagur 12. maí 2006 kl. 15:15

Ungir knattspyrnusnillingar á KFC-móti

Í vetur hafa farið fram knattspyrnuæfingar hjá Keflavík fyrir allra yngstu iðkendurnar og hefur æfingasókn verið mjög góð, eða um 60 piltar að jafnaði á æfingum. Þessir iðkendur sem eru á aldrinum 3-6 ára kepptu á sínu fyrsta fótboltamóti laugardaginn 6. maí s.l.

Þá fór fram KFC-mót 8. flokks á vegum knattspyrnudeildar Víkings í íþróttahúsinu Víkinni og sendi Keflavík 6 lið í mótið. Það var mikil eftirvænting hjá krökkunum að fara að keppa og klæðast Keflavíkurbúningnum en það sem toppaði allt var að fá sinn fyrsta verðlaunapening!

Dagurinn var hreint út sagt frábær og algjör snilld að sjá svo unga knattspyrnukappa eltast við tuðruna og sýna skemmtilega takta. Piltarnir voru reyndar misáhugasamir á vellinum og var þreytan fljót að gera vart við sig hjá mörgum þeirra. Það var margt annað meira spennandi en boltinn eins og t.d. mamma og pabbi, auglýsingarnar á gólfinu, netið í markinu, vatnsbrúsinn o.fl.!

Allir skemmtu sér vel, jafnt krakkarnir sem og þeir fjölmörgu foreldrar sem fylgdu íþróttasnillingum framtíðarinnar á sitt fyrsta mót; mót sem skilur eftir margar góðar og skemmtilegar minningar.

Í lok móts gæddu piltarnir sér svo á gómsætum KFC kjúklingi og fóru saddir, glaðir og stoltir heim með verðlaunapeninginn um hálsinn.

Texti og mynd frá mótinu af heimasíðu Keflavíkur. Þar má sjá mun fleiri myndir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024