Ungir fótboltapeyjar panta myndatöku hjá Víkurfréttum
Víkurfréttir fengu skemmtilega símhringingu í hádeginu frá ungum strákum úr Reykjanesbæ, þeim Stefáni Ólafssyni, Arnóri Svanssyni og Eyþóri Rúnarssyni. Þeir sögðust vera stuðningsmenn Njarðvíkur í fótbolta ásamt því að æfa með 6. flokki félagsins. Báðu þeir um að fá að tala við blaðamann þar sem þeir vildu fá mynd af sér á síður Víkurfrétta. Aðspurðir hvort þeir hefðu verið að vinna eitthvað í fótboltanum sögðu þeir svo nú ekki vera heldur væru þeir einfaldlega að koma sér á framfæri í blöðunum. „Við viljum bara fá mynd af okkur í blöðin“, sögðu þeir þegar blaðamaður Víkurfrétta hitti peyjana. Auðvitað smelltum við mynd af guttunum enda framtakssamir piltar sem höfðu dressað sig upp í upphitunargalla félagsins og takkaskó tilbúnir í myndatöku.