Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ungar og skortir stöðuleika
Föstudagur 6. nóvember 2015 kl. 11:00

Ungar og skortir stöðuleika

-Mál Bryndísar að baki. Meðalaldur Keflvíkinga er 18 ár.

Margrét Sturlaugsdóttir segir ungt lið hennar eiga margt eftir ólært. Leiðtoga vantar í liðið og er leikur liðsins óstöðugur að hennar mati. Hún talar um að leikurinn gegn Snæfelli á dögunum hafi verið ákveðin lokun varðandi brotthvarf Bryndísar Guðmundsdóttur frá Keflavík.

Keflvíkingar hafa ekki hafið leiktíðina vel í kvennakörfunni. Aðeins hefur unnist einn sigur í fyrstu fjóru umferðunum. Liðið varð fyrir mikilli blóðtöku þegar landsliðskonan Bryndís Guðmundsdóttir yfirgaf liðið og gekk til liðs við Íslandsmeistara Snæfells. Margrét Sturlaugsdóttir þjálfari segir vanta leiðtoga í liðið sem er skipað kornungum leikmönnum. Hún segir ákveðin skil hafa verið eftir að Keflvíkingar mættu Bryndísi og Snæfellingum á dögunum.

„Það eru miklar breytingar að eiga sér stað og það var þvílíkt drama þarna um daginn. Það tekur tíma að móta þetta unga lið og það er búið að vera smá tilvistarkreppa út af hlutverkaskipan og öðru,“ segir Margrét. Oft er talað um kynslóðaskipti í boltanum og þau virðast sannarlega vera að eiga sér stað í Keflavík. „Nú er þetta þannig að þær sem eru 18-19 ára eru „reynsluboltar“ og fyrirmyndir fyrir þær sem eru enn yngri,“ segir Margrét. Bryndís var máttarstólpi og elst í liðinu. Núna er elsti leikmaðurinn hin bandaríska Melissa Zorning sem aðeins 23 ára.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kaninn þarf að leiða liðið
„Það er ekkert launungamál að við vorum að sækjast eftir leiðtoga í erlenda leikmanninum okkar. Ég var ekkert endilega að leita eftir skorara heldur einhverjum sem er leiðandi andlega á vellinum og myndi taka á skarið og reka hinar áfram. Þetta hefur helst vantað frá henni. Hún hefur staðið sig ágætlega en hún er kannski full dauf sem persónuleiki fyrir þetta lið. Það er þó ekki komið til þess að við höfum hugsað um að senda hana í burtu.“

Er brotthvarf Bryndísar að hafa áhrif á stemninguna í liðinu?
„Nei ekki lengur. Það var ákveðinn hjalli að fara þarna til Stykkishólms og spila á móti þeim. Nú er það bara búið og hefur þegar tekið sinn toll á liðinu. Það er ekki hægt að dvelja við þetta mikið lengur. Án þess að allir hafi verið að spá í þessu þá er ekki hægt að neita því að þetta tók sinn toll.“

Var málið varðandi Bryndísi rétt meðhöndlað?
„Það er mín skoðun að það er alltaf hægt að læra af öllu. Annars er stöðnun í gangi og mér er illa við stöðnun. Ég er alveg sátt við mínar ákvarðanir, þær voru teknar af yfirvegun og eftir miklar pælingar. Bæði hvað varðar landsliðið og það að geta ekki gefið þessi fjögur atriði eftir. Mér fannst þetta þurfa að koma fram, ég fer ekkert ofan af því. Ég var orðin leið á því að vera alltaf tækluð eins og eins konar grýla í málinu og var ósátt við það. Það voru engir samskiptaörðugleikar. Ég er alltaf tilbúin að vinna með fólki en hún gaf ekki færi á því og með ákveðinni þöggun þá hentar það hennar málstað miklu betur en mínum.“ Margrét sagði í viðtölum eftir brotthvarf Bryndísar að þessi fjögur atriði sem Bryndís hafi farið fram á hafi verið þau: hún vildi vera fyrirliði, vildi láta koma fram við sig öðruvísi en aðra leikmenn. Hún vildi ekki láta öskra á sig og vildi fá öruggar spilamínútur. Margrét átti erfitt með að sætta sig við þessar kröfur. Hún hætti því sem aðstoðarþjálfari landsliðsins svo Bryndísi gæti liðið betur á æfingum með landsliðinu.

Hvað varðar spilamennsku Keflavíkurliðsins þá segir Margrét ýmislegt mega bæta. „Okkar helsti veikleiki núna er óstöðuleiki. Við getur verið alveg fáránlega góðar og svo fáránlega lélegar. Við þurfum að finna út úr því og tökum bara einn dag í einu eins og alkarnir. Þessar stelpur eru langt úti í djúpu lauginni og margar að spila miklu meira hlutverk en 16 ára stelpur eru vanar að gera. Það er stór biti að kyngja fyrir þær að lenda kannski í byrjunarliðinu og vera að dekka Kanann í hinu liðinu. Ég er því að vona að kannski strax á næsta ári verði þær tilbúnar og búnar að taka meiri framförum en ella.“

Þessir ungu leikmenn eru flestir að komu upp úr sigursælastu unglingaliðum Íslandssögunnar þannig að þær þekkja lítið annað en sigur. „Það er kannski erfiðast fyrir þessar sem eru að koma upp að venjast mótlæti því þær eru vanar því að vinna alltaf. Ég fagna því að það þurfi aðeins að hafa fyrir þessu og er það ákveðinn lærdómur sem er mikilvægur. Við erum að einblína inn á við að bæta okkur og það er ekki komin sú tilfinning að við verðum að vinna næsta leik. Við þurfum að láta þetta smella og láta okkur líða vel, þá gengur betur. Þetta er langt og strangt mót en við erum á réttri leið.“