Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Undramark Ólafs tryggði Fjölni sigur á Sparisjóðsvellinum
Mánudagur 23. júní 2008 kl. 22:56

Undramark Ólafs tryggði Fjölni sigur á Sparisjóðsvellinum

Keflavík mátti sætta sig við sitt fyrsta heimatap á Sparisjóðsvellinum í kvöld þegar Fjölnismenn komu og sóttu þangað þrjú stig. Lokatölur voru 1-2 gestunum í vil en sigurmarkið skoraði Ólafur Páll Snorrason með mögnuðu langskoti af hægri kanti á 53. mínútu.
 
Í fyrri hálfleik, nánar til tekið á 31. mínútu, hafði Guðmundur Steinarsson komið Keflvíkingum yfir með skoti úr teig eftir stungusendingu frá Símuni Samuelsen. 
 
Á síðustu mínútu hálfleiksins jafnaði Gunnar Már Guðmundsson svo leikinn með víti. Spyrnan var örugg en það sama má ekki segja um vítaspyrnudóminn sem var tæpur að margra mati.
 
Eftir undramark Ólafs sóttu Keflvíkingar í sig veðrið og pressuðu stíft að marki Fjölnis, en áttu í erfiðleikum með að skapa sér færi að ráði. Gestirnir voru afar þéttir í varnarleik sínum, eins og þeirra er von og vísa.
 
Fyrir utan frábært skot Magnúsar Þorsteinssonar á 71. mínútu, sem Þórður Ingason í marki Fjölnis varði með tilþrifum, var fátt um fína drætti hjá þeim þar sem krafturinn og viljinn virtist vera gestanna.
 
„Þetta er gríðarlega svekkjandi og skelfileg frammistaða hjá okkur í þessum leik,“ sagði Guðmundur Steinarsson í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn. „Við getum ekki boðið okkar stuðningsmönnum upp á svona leik aftur á heimavelli. Það er alveg klárt mál.“
 
Að því sögðu kom Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, aðvífandi og vísaði Guðmundi inn í klefa þar sem hann hefur haft eitt eða annað að segja við sína leikmenn.
 
Keflvíkingar eru enn í efsta sæti deildarinnar en FH geta komist yfir þá með sigri á morgun.


VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024