Undir hælnum á ákveðnum leikmönnum
Margrét Sturlaugsdóttir fráfarandi þjálfari Keflavíkur bjóst við betri vinnubrögðum stjórnar
Margrét Sturlaugsdóttir fráfarandi þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta gagnrýnir stjórn deildarinnar harkalega en hún fékk reisupassann fyrr í vikunni. Hún segir að hún hefði gjarnan viljað vera áfram með liðið og uppsögnin hafi komið henni mikið á óvart.
Fyrr á tímabilinu höfðu deilur milli Margrétar og Bryndísar Guðmundsdóttur komist í kastljósið, málalyktir urðu þær að Bryndís ákvað að ganga til liðs við Snæfell og Margét hætti sem aðstoðarþjálfari hjá landsliðinu í kjölfarið.
Falur Harðarson eiginmaður Margrétar hætti sem formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í kjölfarið af uppsögn hennar. Jón Halldór Eðvaldsson tekur við formennsku en í samtali við Víkurfréttir sagði Jón að stjórnin myndi ekki tjá sig um ástæður uppsagnarinnar. „Málið er viðkvæmt og þetta er bara einkamál milli deildarinnar og Margrétar,“ sagði Jón. Hann vildi ekki tjá sig um hvort stjórnin hafi verið ósátt við störf Margrétar eða hvort ósætti hafi komið upp milli hennar og leikmanna.
Margrét er á því að fyrst og fremst hafi ástæðan verið sú að leikmennirnir Bríet Hinriksdóttir og Sandra Lind Þrastardóttir hafi verið ósáttar við sitt hlutskipti. „Það er mín skoðun að þær hlupu á sig og urðu reiðar. Það er erfitt að bakka út úr því og segja fyrirgefðu við liðið.“ Margrét segir að þær hafi verið settar úr byrjunarliði eftir að hafa ekki mætt á allar æfingar.
Settar úr liðinu fyrir að mæta ekki á æfingar
„Í mínum þjálfarabókum hefur það alltaf verið þannig að þjálfarinn ræður byrjunarliðinu alveg saman hvað er í gangi. Hvort sem það er eins og í þessu tilfelli mætingu á æfingu, sem er ekkert stórmál, en það þarf það sama yfir alla að ganga. Það eru tvær sem byrja útaf, önnur varð brjáluð og hin ekki. Ég gaf tíu daga frí yfir jólin. Eftir landsliðsprógram þá mætir önnur þessara leikmanna ekki á fjórar æfingar og hin ekki á tvær, en það var ekki vegna landsliðsæfinga.“
Margrét segist hafa búist við betri vinnubrögðum frá stjórn körfuknattleiksdeildar þegar ákvörðun hafi verið tekin um að láta hana fara. „Ég hefði viljað betri vinnubrögð. Þeir töluðu aldrei við hina tólf leikmennina. Töluðu bara stuttlega við mig en meira við hinar geri ég ráð fyrir, það var svo tekin afstaða út frá því. Það er engin ástæða fyrir þessu nema sú að ég gat ekki ráðið byrjunarliðinu og öðru nema vera undir hælnum á ákveðnum leikmönnum,“ hún segir að því hafi verið erfitt að kyngja en viðurkennir að stjórnin hafi verið í erfiðri stöðu.
Margrét bætir því við að aðalmálið sé að Keflavík sé í góðum höndum núna og þessar stelpur þurfi bara að stíga upp og sanna sig.
„Stjórnin gefur þá ástæðu að það sé óánægja til staðar. Við vorum í hellings barningi út af þessu máli með Bryndísi fyrr í vetur. Ég var svo glöð að hafa talað sjálf við stjórnina þá og talaði svo við stelpurnar eftir það og bað þær að vera í bandi ef það væri eitthvað. Þær höfðu því öll tækifæri til þess að vera opinskáar og ræða sín mál. Ég bað stjórnina um að tala við Bríeti og Söndru því þær voru bestu vinkonur Bryndísar í liðinu. Það var allt gert, þannig að allt átti að vera í blóma. Það er bara fyrirsláttur að það hafi verið eitthvað annað. Það var bara reiðin og pirringurinn yfir að vera ekki í byrjunarliðinu og að vera tekin út af.“
Gætu ekki nefnt leikmenn á nafn
Hvað finnst þér um þá staðreynd að ákveðnir leikmenn geti haft þessi áhrif á stjórnina?
„Þeir verða að svara fyrir það. Þetta er greinilega lína sem þeir eru að leggja. Því miður er það sorgleg staðreynd að þeir sem tóku ákvörðun um þetta lið, þeir hefðu ekki getað labbað niður á gólf á meistaraflokksæfingu og nefnt alla leikmenn á nafn,“ segir Margrét.
„Þegar ég var ráðin í þetta starf. Þá eru það orð stjórnar að það þyrfti að taka aðeins til og koma skikki á þetta lið aftur. Þannig að þeir voru að ráða inn mín vinnubrögð, eða það hélt ég.“
„Mín skoðun er sú að það hefur verið lenska í Keflavík að þjálfari meistaraflokks karla hafi þjálfað kvennaliðið líka síðan þessar stelpur komu upp. Mér finnst bara eins og þær hafi fengið að ráða of miklu. Svo kem ég og ákveð að vinna mína vinnu eins og ég hef alltaf gert og það bara hentar ekki.“
Heldur þú að þær hefðu komið öðruvísi fram við þig ef þú værir karlmaður?
„Ö…, já,“ segir Margrét og hlær. „Það er kannski svolítið flókið fyrir stelpur að hafa kvenstjórnanda en ég átta mig ekki alveg á því af hverju svo er, hvort þær líti á mig sem einhverja samkeppni eða hvað.“
Margrét þekkir stelpurnar í liðinu afar vel. Margar þeirra eru vinkonur dætra hennar sem líka hafa leikið með liðinu.
„Þær vissu alveg fyrirfram hvernig ég er. Þetta kom greinilega eitthvað við kauninn á þeim og þeirra væntingar um að vera að spila. Þannig að ég get eiginlega ekki litið á það svo að þetta hafi verið mín vinnubrögð sem orsaka þetta.“
Margrét hefur kvatt liðið og horfir nú fram á veginn. Hún segist vel geta hugsað sér að halda áfram þjálfun, það sé ennþá eitt það skemmtilegasta sem hún gerir.
„Allir hinir leikmennirnir komu til mín á föstudagskvöldið og ég knúsaði þær og kvaddi með virtum. Svo kíkti ég á æfingu í gær og talaði við hinar tvær, það var bara fínt. Maður þarf ekki endilega að vera sammála en maður getur verið fullorðinn og tekið mótlæti.“