Undanúrslit Lengjubikars kvenna í kvöld – Leggst vel í okkur, segir Jón Halldór
Í kvöld kemur í ljós hvaða lið leika til úrslita í Lengjubikar kvenna en Keflvík er eina Suðurnesjaliðið í undanúrslitunum. Keflavík og Hamar mætast í Hveragerði í kvöld og hefst leikurinn kl. 19:15. Á hinum vængnum mætast KR og Haukar.
Keflavík komst í undanúrslit eftir góðan sigur á Snæfelli um helgina og Hamar sigraði Njarðvík með miklum yfirburðum.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari kvennaliðs Keflvíkinga, segir leikinn í kvöld leggjast vel í sig. „Stemmningin er góð í liðinu. Hamar er með tvo útlendinga og einhverja landsliðsmenn þannig að þetta sterkt lið. Þetta verður skemmtilegt,“ sagði Jón Halldór í samtali við VF í morgun. Keflvíkingurstúlkur mæta með fullskipað lið utan Rannveigar Randversdóttur sem forfallaðist.
Aðspurður segir Jón komandi keppnistímabil leggjast vel í sig. „Útlitið er nokkuð gott, við erum bjartsýn og ætlum okkur að vera í toppbaráttunni. Það er orðið langt síðan bikarinn kom í Keflvík þannig að er ekki kominn tími til að ná í hann“?
VFmynd/Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari kvennaliðs Keflvíkinga.