Una hleypur sitt 12. maraþon til styrktar Ljósinu
Steinunn Una Sigurðardóttir mun hlaupa sitt 12. maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Þetta er fjórða maraþonið sem hún hleypur á Íslandi, en hún hefur einnig hlaupið tvisvar í New York, einu sinni í Chicago, París, Kaupmannahöfn, Milano, Stokkhólmi og í London.
„Maraþonið leggst ágætlega vel í mig í ár, ég er búin að æfa vel en manni finnst alltaf að maður hefði átt að æfa meira,“ segir Steinunn en hún skiptir öllum hlaupum í fjóra kafla.
„Fyrstu 10 km. er hrikalega gaman og sperringur í manni, maður fer yfir líkamann í huganum og finnst lífið gott. Næstu tíu verð ég gráðug og mjög góð með mig og gef mikið í. Á milli 20 og 30 þá þyngist aðeins róðurinn, þreytan segir til sín og líkaminn byrjar að kvarta í 25 km. Á þessum tímapunkti fer ég að gefa fólkinu mínu kílómetra, einn fyrir mömmu, einn fyrir pabba og koll af kolli. Eftir 30 km. hefst harkið, líkaminn vill ekki meira og ég sannfæri sjálfa mig um að ég eigi aldrei eftir að hlaupa annað maraþon. Svo sérðu skyndilega markið í fjarlægð og það gefur þér einhvern kraft.“
Steinunn Una ætlar að hlaupa til styrktar Ljósinu á laugardaginn vegna þess að hún á bæði ættingja og vinkonur sem hafa barist við krabbamein og margir sem hún þekkir misst ástvini sem barist hafa við krabbamein. Í baráttu þeirra hefur Ljósið skipt sköpum og unnið kraftarverk fyrir og með þessu fólki.