UMFN sigursælir á Mjölnir Open
Um helgina var haldið Mjölnir Open glímumótið þar sem keppt var í uppgjafarglímu. Á mótinu voru margir bestu glímumenn landsins og þar á meðal Gunnar Nelson, Sighvatur Helgason og Auður Olga Skúladóttir, en þau eru meðal bestu brazilian jiu jitsu keppenda landsins. Auk þeirra voru sumir af bestu judokeppendum landsins að keppa á mótinu.
Júdódeild Njarðvíkur er með æfingar í brazilian jiu jitsu og er sá hópur gjarnan kallaður Sleipnir/UMFN. Þrír keppendur kepptu frá Sleipni/UMFN á Mjölnir Open og stóðu sig eins og best var á kosið. Guðmundur Stefán Gunnarson, judoþjálfari hjá UMFN keppti í +99 kg. flokki karla og sigraði allar sínar glímur í flokknum örugglega á hengingartaki og sigraði þar með flokkinn. Helgi Rafn Guðmundsson og Björn Lúkas Haraldsson kepptu báðir í -77 kg. flokki karla, en sá flokkur var sá fjölmennasti á mótinu. Helgi þjálfar brazilian jiu jitsu hjá Sleipni/UMFN og taekwondo hjá Keflavík og Grindavík. Helgi sigraði fyrstu glímuna sína á fótalás, næstu glímu sigraði hann á stigum og sá þriðju, einmitt á móti Birni Lúkasi, á hengingartaki. Helgi sigraði því sinn flokk. Björn Lúkas sigraði sína fyrstu glímu á armlás, og næstu tvær sigraði hann á fótalás. Helgi og Björn mættust því í úrslitum flokksins eftir að hafa slegið út alla aðra mótherja í flokknum og var það Helgi sem stóð uppi sem sigurvegari eftir góða og jafna glímu.
Björn Lúkas, sem er eingöngu 16 ára stóð sig frábærlega á þessu móti. Hann er einn efnilegasti bardagamaður landsins en hann æfir m.a. taekwondo og júdó með Grindavík og brazilan jiu jitsu hjá Sleipni/UMFN. Björn hefur verið Íslandsmeistari í öllum þessum greinum og Norðurlandameistari í júdó. Hann var nýverið í æfingabúðum í Tælandi þar sem hann lagði m.a. stund á brazilan jiu jitsu, blandaðar bardagalistir (MMA) og tælenskt sparkbox (muay thai). Þetta voru því draumaúrslit fyrir keppendurnar frá Suðurnesjunum, en fyrir vikið var Sleipnir/UMFN í 2. sæti stigakeppninnar þrátt fyrir einöngu 3 keppendur. Mjölnir Open en stærsta og sterkasta mót í uppgjafarglímu sem haldið er hvert ár og því er árangur okkar manna mjög góður.
Brazilian jiu jitsu er glímuíþrótt sem er skyld júdó. Helsti munur á þeim íþróttum er að í brazilian jiu jitsu er mun meiri áhersla á gólfglímu og svo er keppnum í íþróttinni skipt í tvennt; annars vegar keppni í júdógalla, og hins vegar án hans, en þá er keppt í stuttbuxum og bol. Sú keppni er gjarnan kölluð uppgjafarglíma án galla. Hægt er að sigra glímu ef andstæðingur gefst upp vegna hengingar eða liðamótlás, en einnig er hægt að sigra glímu á stigum.
Mikil gróska er í bardagalistum á Suðurnesjunum en nú eru æfingar að hefjast hjá öllum félögunum í Reykjanesbæ. Þjálfarar hjá UMFN judo, Keflavík taekwondo og HFR box eru með metnaðarfullt starf og íþróttafræðinga meðal sinna þjálfara. Félögin hafa öll náð frábærum árangri á landsvísu og eru meðal sterkustu félaga í hverri grein fyrir sig.