Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

UMFN Íslandsmeistari í unglingaflokki - Ólafur Helgi brilleraði
Sunnudagur 17. apríl 2011 kl. 17:58

UMFN Íslandsmeistari í unglingaflokki - Ólafur Helgi brilleraði

Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í drengjaflokki eftir 84-86 spennusigur gegn KR í Laugardalshöll. Ólafur Helgi Jónsson fór á kostum í liði Njarðvíkinga í dag og gerði 40 stig, tók 20 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Ólafur var réttilega valinn besti maður leiksins en kappinn setti niður 10 af 14 þriggja stiga skotum sínum í leiknum, glæsileg frammistaða en þess má geta að það tók kappann ekki nema 11 mínútur í dag að landa tvennu en það var í upphafi annars leikhluta og Ólafur var þá kominn með 26 stig og 11 fráköst.


Vesturbæingar hófu leikinn í 2-3 svæðisvörn en það varnarafbrigiði reyndu Haukar gegn þessu sama Njarðvíkurliði með dræmum árangri þegar liðin mættust um síðustu helgi í úrslitum unglingaflokks karla. Ólafur Helgi Jónsson fór af stað snemma leiks og með tveimur þristum kom hann Njarðvíkingum í 2-8 en Ólafur var rétt að hitna og átti eftir að fara á kostum næstu tuttugu mínúturnar eða svo.

Í stuttu máli sagt þá stóð Ólafur Helgi í ljósum logum í fyrsta leikhluta, þriðji þristur hans kom Njarðvík í 4-13, sá fjórði í 4-18 og fimmti þristurinn frá Ólafi kom Njarðvíkingum í 5-21 og Ólafur búinn að gera 17 af 21 stigi Njarðvíkinga á rétt rúmum fimm mínútum.

Ólafur kvaddi ekki fyrsta leikhluta fyrr en hann hafði sett sjötta þristinn niður og það í jafn mörgum tilraunum og staðan 5-26 Njarðvík í vil og lokastaða leikhlutans 13-34. KR-ingar reyndu að hægja á Ólafi en aðrir leikmenn grænna tóku þá við keflinu og áttu röndóttir engin svör í upphafi leiks. Lygileg frammistaða á fyrstu tíu mínútunum hjá Ólafi og héldu honum engin bönd.

Ólafur var ekkert hættur og landaði tvennunni í upphafi annars leikhluta, það tók kappann 11 mínútur að ná í 26 stig og 11 fráköst fyrir Njarðvíkinga! Strax eftir að tvennan var komin í hús hjá Ólafi bombaði hann niður sjöunda þristinum sínum í jafn mörgum tilraunum og af hverju ekki að skjóta þegar menn eru sjóðandi heitir? Það var einmitt það sem Ólafur gerði í næstu sókn en þá loks brenndi hann af skoti, tók hann átta tilraunir til þess að klikka loks úr þriggja stiga skoti... ef svo má að orði komast.

Í stöðunni 32-48 Njarðvík í vil fékk Matthías Orri Sigurðarson dæmda á sig óíþróttamannslega villu í liði KR og þá settu KR-ingar niður fótinn, sögðu hingað og ekki lengra og þeir félagar Martin Hermannsson og Matthías Orri tóku við sér, stýrðu KR af festu og minnkuðu muninn í 39-50 þegar tvær mínútur voru til hálfleiks. Að frumkvæði Martins og Matthíasar var komin meiri grimmd í vörn KR-inga og náðu röndóttir að minnka muninn í níu stig, staðan 41-50 í hálfleik en Ólafur Helgi Jónsson ókrýndur konungur fyrri hálfleiks með 27 stig og 13 fráköst í liði Njarðvíkinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þriðji leikhluti var öllu líkari úrslitaviðureign en fyrstu tveir hlutarnir þar sem liðin skiptust á að rassskella hvert annað. KR minnkaði muninn í 56-59 og voru farnir að anda verulega ofan í hálsmál grænna þegar Njarðvíkingar rifu sig frá með þrist, frá hverjum öðrum en Ólafi Helga, og staðan 56-62 fyrir Njarðvík. Martin Hermannsson hélt KR vel við efnið í þriðja leikhluta en samt sigu Njarðvíkingar frá að nýju og leiddu 62-72 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

KR var að elta allan fjórða leikhluta, gerðu það reyndar vel og þegar líða tók á færðust þeir nærri. Oddur Rúnar Kristjánsson setti niður þrist fyrir KR sem minnkaði muninn í 78-84. KR mátti skömmu síðar sjá á eftir Matthíasi Orra af velli með fimm villur fyrir litlar sakir að því er virtist en þá steig Martin Hermannsson enn eina ferðina upp í liði KR. Martin braut sér leið í gegnum Njarðvíkurvörnina og minnkaði muninn í 82-84 þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Martin var aftur á ferðinni 11 sekúndum fyrir leikslok og minnkaði muninn í 84-86. Njarðvíkingar brenndu af tveimur vítaskotum þegar 9 sekúndur voru til leiksloka, Martin Hermannsson fékk boltann í liði KR, brunaði upp völlinn og reyndi erfitt þriggja stiga skot um leið og lokaflautið gall en það geigaði og Njarðvíkingar fögnuðu sigri, lokatölur 84-86 Njarðvík í vil eftir æsispennandi lokasprett.

Ólafur Helgi Jónsson átti einhverja mögnuðustu yngriflokka frammistöðu sem undirritaður hefur orðið vitni að í langan tíma þegar hann setti niður 40 stig, tók 20 fráköst og 4 stoðsendingar í liði Njarðvíkinga. Maciej Baginski bætti svo við 15 stigum Styrmir Gauti Fjeldsted gerði 14. Hjá KR var Martin Hermannsson frábær með 31 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar og Matthías Orri Sigurðarson gerði 29 stig og gaf 6 stoðsendingar.

,,Já, það var alveg málið,“ svaraði Ólafur Helgi Jónsson brosmildur þegar Karfan.is spurði hann að því hvort hann hefði gefið 4 stoðsendingar í leiknum svo fólk héldi nú ekki að hann væri alger einspilari. Að öllu gamni slepptu þá var Ólafur svakalegur í dag og setti niður 10 þrista í 14 tilraunum. ,,Ég gat bara ekki klikkað og mér fannst allt geta farið ofaní og tilfinningin fyrir hverju einasta skoti var góð,“ sagði Ólafur en hefðu Njarðvíkingar ekki átt að gera fyrr út um leikinn?

,,Jú, við vorum flottir eftir fyrsta leikhluta en urðum svo kærulausir, fórum að tapa boltum, vítin duttu ekki og það kom smá stress í hópinn og fórum á tempóið hjá KR,“ sagði Ólafur en hann þarf ekki að kvarta, þessi drengjaflokkur Njarðvíkinga er sterkur, tveir Íslandsmeistaratitlar á jafn mörgum helgum, fyrst í unglingaflokki og nú í drengjaflokki. ,,Nei við kvörtum ekki enda höfum við unnið vel fyrir þessu frá því í sumar. Við æfðum stíft bara frá og með síðasta leik á síðustu leiktíð og eigum þetta vel skilið,“ sagði Ólafur en er þetta einhver besta frammistaða sem hann hefur átt á körfuboltavellinum?

,,Já, það held ég bara.“

Myndasafn úr leiknum.

Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski – [email protected]

Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]