Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

UMFN Greifamótsmeistari 2005
Mánudagur 19. september 2005 kl. 10:16

UMFN Greifamótsmeistari 2005

Njarðvík sigraði Þór í úrslitaleik Greifamótsins á Akureyri í gær, 76-86.

Þór hóf leikinn betur og leiddi eftir fyrsta leikhluta, 20-14, en Njarðvíkingar sýndu mátt sinn og megin í öðrum leikhluta og náðu forystu fyrir hálfleik, 29-42. Jeb var illviðráðanlegur í sókninni með 20 stig og varnaleikur liðsins frábær að því er fram kemur á heimasíðu Njarðvíkur.

Þórsarar minnkuðu muninn í þriðja leikhluta og var staðan 60-62 fyrir lokasprettinn eftir þrjár 3ja stiga körfur Norðanmanna á síðustu mínútunni.

Spennan var mikil í síðasta leikhluta, en Njarðvíkingar voru seigir á lokakaflanum þar sem Örvar Kristjánsson gerði 9 stig á stuttum tíma og loks kláruðu þeir leikinn á síðustu andartökunum.

Jeb Ivey var atkvæðamestur njarðvíkinga með 31 stig, Örvar gerði 16 stig, Egill Jónasson gerði 15 og lék afbragðs varnarleik, Jóhann Ólafsson gerði 14, Kristján Sigurðsson 6, Guðmundur Jónsson 4 og Ragnar Ragnarsson lék einnig án þess að skora.

Sigurinn var þeim mun sætari þegar horft er til þess að þeir léku án sinna reyndustu manna, Friðriks Stefánssonar, Brentons Birmingham og Halldórs Karlssonar. Næsti leikur UMFN er á miðvikudaginn kl 19:15 í ljónagryfjunni gegn Grindavík.

VF-mynd úr safni/Jeb Ivey hefur sannarlega stimplað sig rækilega inn í lið Njarðvíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024