UMFN 80 ára - fjörið byrjar í úrslitakeppninni í körfubolta
Ungmennafélag Njarðvíkur fagnar 80 ára afmæli á árinu. Hefst afmælisfögnuður fyrir fyrsta leikinn í úrslitakeppni karla í körfubolta sem fer fram 10. apríl, á sjálfan afmælisdag Ungmennafélags Njarðvíkur.
Á afmælisdaginn verður hægt að gæða sér á alvöru grillborgurum frá 17.45 í FanZone-tjaldinu við Gryfjuna. Þá verður Candyfloss á boðstólunum fyrir alla krakka í boði Macron og um 18.30 verður það enginn annar en einn allra heitasti tónlistarmaður landsins Pretty Boi Tjokko sem mun keyra upp fjörið fyrir leik.
„Afmælisárinu verður svo aftur gert hátt undir höfði síðar á árinu þegar við fáum afhent nýtt og glæsilegt Íþróttahús sem verður eitt flottasta körfuboltahús landsins. Við höfum beðið lengi eftir því að fá það hús en framkvæmdir hafa tafist alltof lengi en það má segja að það sé vel við hæfi að fá afhenda slíka lyftistöng á 80 ára afmælisárinu okkar.
Þá verður Kökulist með veglega Njarðvíkur-afmælistertu í hálfleik hjá Njarðvík og Þór Þorlákshöfn.
Fyrir 10 árum síðan gaf félagið út glæsilegt afmælisrit sem spannar yfir sögu félagsins frá 1944 til 2014. Það rit er til á rafrænu formi hér.
Mikill vöxtur er í félaginu en í dag eru tveir starfsmenn í fullu starfi sem sjá um daglegan rekstur og aðstoða deildir félagsins eftir því sem við á. Sífellt meiri kröfur eru lagðar á starfsemi íþróttafélaga sem verður til þess að sjálfboðaliðar endast styttra í hlutverkum sínum og tíðari breytingar eru á stjórn félagsins og deilda. Við í Njarðvík teljum okkur engu að síður búa yfir sérstöðu hvað sjálfboðaliða varðar, starfsemi félagsins væri hvorki fugl né fiskur án fórnfýsi og eljusemi þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem komið hafa að starfi bæði fyrir deildir og félagið í heild,“ segir á heimasíðu UMFN.