Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Keflavík slapp fyrir horn í Dalhúsum
Föstudagur 23. mars 2012 kl. 10:00

Umfjöllun: Keflavík slapp fyrir horn í Dalhúsum



Í gær fór fram lokaumferð Iceland Express-deildar karla í körfubolta og réðust úrslitin á síðustu stundu. Keflvíkingar lentu í kröppum dansi gegn Fjölni en Karfan.is var á staðnum og hér að neðan er umfjöllun þeirra frá leiknum.


Þessu lauk með lítilli Maríubæn þegar Nathan Walkup setti á loft miðjuskot fyrir Fjölni og vonin um úrslitakeppni um leið. Bæn Grafarvogsbúa var ekki svarað að þessu sinni og Keflavík fór með tvö stig úr Dalhúsum eftir 98-99 sigur í framlengdum leik og þriðja árið í röð verða Fjölnismenn að sjá á eftir farseðlinum í úrslitakeppnina. Menn úr öllum áttum fengu að spreyta sig í leiknum og venju samkvæmt var Magnús Þór Gunnarsson drjúgur og Björgvin Hafþór Ríkharðsson vakti verðskuldaða athygli í liði Fjölnis og þá einkum og sér í lagi með vinstri handar troðslu yfir Charles Parker. Björgvin átti tilþrif leiksins en Keflvíkingar fóru heim með stigin.

Leiktíðinni er því lokið hjá Fjölni en Keflvíkingar halda nú inn í úrslitakeppnina úr 5. sæti deildarinnar og mæta þar Stjörnunni í 8-liða úrslitum, verðugur andstæðingur fyrir Keflavík en Stjarnan vann báðar deildarviðureignir liðanna með töluverðum yfirburðum.

Liðin voru ekkert feimin við að gleyma varnarleiknum í fyrsta leikhluta og að honum loknum leiddu Fjölnismenn 30-23. Mestu lætin komu frá Nathan Walkup þessar tíu fyrstu mínútur þegar hann tyllti Almari Guðbrandssyni á plakat í skrímslatroðslu.

Jarryd Cole fór fyrir Keflavík í fyrri hálfleik og var kominn með 17 stig fyrir gestina eftir 14 mínútna leik. Fjölnismenn dreifðu álaginu vel og Örvar Þór skipti ört sínum leikmönnum. Fjölnir leiddi 49-45 í hálfleik en Keflvíkingar gátu huggað sig við það að eiga töluvert inni þar sem Cole var einn á réttu róli allan fyrri hálfleikinn.

Nathan Walkup var með 9 stig hjá Fjölni í fyrri hálfleik og Jarryd Cole 19 í liði Keflavíkur.
Nýting liðanna í fyrri hálfleik.
Fjölnir: teigskot 56,6% -þriggja 50% og víti 60%
Keflavík: teigskot 45,1% - þriggja 33,3% og víti 72,7%

Björgvin Hafþór Ríkharðsson fór mikinn í þriðja leikhluta og byrjaði á því að troða með vinstri yfir Charles Parker og allt ætlaði vitlaust að verða í Dalhúsum, Parker á plakat og það stuðaði Keflvíkinga sem hnoðuðu saman 11-0 áhlaupi þangað til Örvar Þór tók leikhlé og setti hárþurrkuna á sína menn. Þetta áhlaup Keflavíkur galdraði Magnús Þór fram með þremur eiturhörðum þristum. Björgvin var svo aftur á ferðinni síðar í leikhlutanum með fimm stiga dembu fyrir Fjölni sem leiddu 69-60. Staðan var svo 73-65 fyrir heimamenn fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Í fjórða leikhluta fauk í flest skjól, liðin skoruðu aðeins þrjú stig frá fjórðu til annarar mínútu í leikhlutanum og staðan þá 81-82 fyrir Keflavík eftir að Jarryd Cole setti niður víti. Fjölnismenn fóru reyndar illa að ráði sínu á vítalínunni og Calvin O´Neal brenndi m.a. af fjórum í röð! Dýrkeypt í jöfnum leik. Keflavík komst þó yfir 83-84 en þá vippaði Hjalti Vilhjálmsson sér upp þegar 41 sekúnda var eftir og kom Fjölni í 86-84. Keflvíkingar jöfnuðu strax í næstu sókn og Fjölnismenn áttu því lokaorðið. Calvin O´Neal keyrði þá upp að körfu Keflavíkur og náði ekki góðu skoti sem geigaði og því var framlengt.

Þegar 1.20mín voru eftir af framlengingunni kom Arnþór Fjölni í 93-92 með þriggja stiga körfu en 23 sekúndur voru svo til leiksloka þegar Magnús ,,The Gun" skellti niður þrist og fékk villu að auki dæmda á Hjalta Vilhjálmsson sem mótmælti henni kröftuglega. Fjögur stig í hús og Keflavík leiddi 95-96. Lokasekúndurnar hefðu getað orðið sögulegar, Hjalti Vilhjálmsson setur þrist og minnkar muninn í 98-99 og Fjölnir brýtur svo strax á Val Orra Valssyni. Þessi öflugi leikstjórnandi misnotaði bæði vítin og Fjölnir reyndi skot með þrjár sekúndur til leiksloka, Nathan Walkup skaut þá upp lítilli bæn frá miðju og boltinn skoppaði af hringnum og Fjölnir sá á eftir sæti sínu í úrslitakeppnina þriðja árið í röð.

Keflvíkingar höfnuðu í 5. sæti deildarinnar og mæta Stjörnunni í 8-liða úrslitum þar sem Stjarnan verður með heimaleikjarétt.

Keflavík: Jarryd Cole 37/19 fráköst/3 varin skot, Magnús Þór Gunnarsson 28/5 stolnir, Charles Michael Parker 14/5 fráköst/6 stoðsendingar, Gunnar H. Stefánsson 6, Halldór Örn Halldórsson 5/4 fráköst, Almar Stefán Guðbrandsson 4, Valur Orri Valsson 3/8 stoðsendingar, Ragnar Gerald Albertsson 2, Andri Daníelsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024