Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Grindvíkingar Lengjubikarmeistarar 2011 eftir spennusigur
Laugardagur 3. desember 2011 kl. 16:51

Umfjöllun: Grindvíkingar Lengjubikarmeistarar 2011 eftir spennusigur

Grindvíkingar sigruðu Keflvíkinga í æsispennandi úrslitaleik Lengjubikarsins nú fyrr í dag, 75-74 og hafa Grindvíkingar því lyft tveimur dollum í DHL-höllinni á þessu tímabili, en þeir höfðu áður orðið meistarar meistaranna í Vesturbænum.

Grindvíkingar byrjuðu betur en Jóhann Árni Ólafsson sem var í byrjunaliðinu í dag fór útaf með tvær villur eftir 2 mínútur og Þorleifur Ólafsson kom í hans stað. Keflvíkingurinn Magnús Gunnarsson átti í erfiðleikum með að ná sér í gott skot og Ólafur Ólafsson hafði góðar gætur á honum. Trukkurinn J´Nathan Bullock hélt áfram að sýna áhorfendum að hann getur skotið fyrir utan og Þorleifur Ólafsson kveikti svo í áhorfendum með því fiska villu á Almar Guðbrandsson sem gaf tvö tækifæri á körfu og vítaskoti að auki í upphafi leiks. Staðan var orðin 8-16 fyrir Grindavík þegar að 4 mínútur eru eftir af fyrsta fjórðung. Að loknum fyrsta leikhluta höfðu Grindvíkingar svo yfirhöndina 15-20.

Valur Orri kom svo inn hjá Keflvíkingum og þeir ákveða að fara í svæðisvörn þegar að 2 lota hefst. Valur setti flottan þrist niður og breytir stöðunni í 18-20 en strákurinn hefur verið vaxandi í undanförnum leikjum. Hann fékk þó ekki mikinn tíma á gólfinu í kvöld, sömuleiðis Ragnar Albertsson sem kom ekkert við sögu í dag. Halldór „Downtown“ Halldórsson kom svo inn af bekknum og setur þrist í sinni fyrstu snertingu, hann átti svo eftir að skjóta nokkrum í viðbót en þeir rötuðu ekki rétta leið. Bullock er á þessum tímapunkti kominn með 12 af 26 stigum Grindvíkingar og staðan var 25-26 þegar að 2. leikhluti var rétt að verða hálfnaður.

Steven Gerard kemur Keflvíkingum svo yfir og kveikir í áhorfendum um leið þegar að hann setur þrist í andlitið á Giordan Watson. Staðan var þá 30-28 og Gerard kominn með 8 stig. Villa og vítaskot að auki hjá Jarryd Cole en hann og Bullock hafa verið að kljást mikið í teignum. Steven Gerard fer að fordæmi félaga síns og fiskar villu og fær vítaskot að auki sem hann setur niður. Keflvíkingar ná með því 6 stiga forystu og allt virðist ganga þeim í haginn þegar líður að hálfleik. Grindvíkingar áttu í mestu vandræðum gegn svæðisvörn Keflvíkinga og sóknarleikurinn er á köflum þunglamalegur. Keflvíkingar leiddu með 7 stigum í hálfleik.

Bakvörðurinn Giordan Watson vaknaði svo loks af þungum svefni í byrjun síðari hálfleiks og byrjaði að láta til sín taka en hann var einungis með 2 stig í fyrri hálfleik. Keflvíkingar héldu uppteknum hætti og vörnin var öflug. Þegar 3. fjórðungur var hálfnaður var allt í járnum og Grindvíkingar virtust þá vera tilbúnir að taka þátt í alvöru körfuboltaleik.

Leikurinn varð þarna að mestu skemmtun og boðið upp á skemmtileg tilþrif og örlitla pústra. Ekkert fékkst gefins og mikið var um harðar villur í leikhlutanum. Þegar 2 mínútur voru eftir af leikhlutanum plantaði Magnús Gunnarsson sér á vítalínuna en Ómar Sævarsson fékk dæmda á sig tæknivillu og strax í næstu sókn fékk Magnús þrjú vítaskot þegar brotið var á honum í þriggjastigaskoti. Keflvíkingar héldu enn forystunni en Almar Guðbrandsson fékk sína 5. villu um þetta leyti, en piltur gerðist sekur um ansi klaufalegar villur í leiknum. Fyrir loka fjórðunginn var því fjögurra stiga munur, 60-56, Keflvíkingum í vil og stemningin í húsinu orðin fín.

Grindvíkingar virtust vera að snúa leiknum sér í hag þegar staðan var 60-58 fyrir Keflvíkingar en Steven Gerard ákvað að taka þátt í auglýsingaherferð fyrir Subway. Kappinn smellti niður rándýrum þrist, en hann var staddur nær miðju vallarins en þriggjastiga línunni, og það á Subway merkinu sem prýðir parketið í DHL-Höllinni. Keflvíkingar gengu á lagið og juku forskot í 9 stig og ekkert í kortunum sem spáði fyrir um það að Grindvíkingar myndu koma til baka.

Steven Gerard var maðurinn hjá Keflvíkingum og virtist sem hann væri algerlega með Watson í vasanum. Watson steig þó upp á endanum. Sá kom með mikinn sprett og jafnaði leikinn fyrir Grindvíkinga þegar rétt innan við 3 mínútur voru til leiksloka, fyrst með sniðskoti eftir að hafa stolið boltanum og svo með þrist af dýrari gerðinni, með öllum aukabúnaði. Liðin skiptust svo á því að halda forystu um skeið en Grindvíkingar voru yfir 74-75 þegar 57 sekúndur voru eftir og leikhlé tekið. Jarryd Cole geigaði svo af stuttu færi þegar hann hafði möguleika á því að koma Keflvíkingum yfir og skömmu síðar misstu Grindvíkingar boltann.

Keflvíkingar lögðu í sókn þegar að 25 sekúndur voru eftir boltinn settur í hendurnar á Hr. Kúplingu, eða Charlie Parker eins og hann er jafnan kallaður. Hann geigaði hins vegar úr skoti sínu og eftirleikurinn var Grindvíkingum auðveldur og héldu þeir boltanum út leiktímann og tryggðu sér titilinn. Sannarlega var þetta sárt fyrir Keflvíkinga sem höfðu haft yfrihöndina nánast allan leikinn.

Grindavík: J'Nathan Bullock 27/11 fráköst, Giordan Watson 15/9 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/6 fráköst, Ólafur Ólafsson 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 8/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Þorsteinn Finnbogason 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Jóhann Árni Ólafsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

Keflavík: Steven Gerard Dagustino 26, Charles Michael Parker 20/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 11/6 fráköst, Jarryd Cole 7/7 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 5/8 fráköst, Valur Orri Valsson 5, Ragnar Gerald Albertsson 0, Sigurður Friðrik Gunnarsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0.


Texti EJS/Myndir Páll Orri Pálsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024