Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Umfjöllun: Grindavík með hreðjatak á einvíginu
Föstudagur 13. apríl 2012 kl. 22:46

Umfjöllun: Grindavík með hreðjatak á einvíginu





Það var mikið undir í Ásgarði í kvöld þegar Stjörnumenn tóku á móti Grindvíkingum í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Grindvíkingar höfðu unnið fyrri leik liðanna suður með sjó og gátu því náð algeru hreðjataki á einvíginu við Stjörnumenn með sigri.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta, þó Grindvíkingar hafi leitt stærstan hluta fjórðungsins. Heimamenn voru aldrei langt undan og eftir frábæra rispu hjá Jovan Zdravevski höfðu Garðbæingar eins stigs forskot að loknum fyrsta leikhluta, 19-18.

Grindvíkingar leiddu áfram í öðrum leikhluta og héldu forskoti sínu í kringum fimm stigin lengst af. Stjörnumenn létu þó ekki deigan síga og héldu vel í við Grindavík. Tilþrif leiksins sáust í öðrum fjórðungi þegar hinn ungi Dagur Kár Jónsson varði skot frá J’Nathan Bullock og setti svo fyrsta þrist Stjörnunnar í leiknum á hinum enda vallarins. Þrátt fyrir þessi tilþrif Dags höfðu Grindavík sex stiga forskot í hálfleik, 33-39, eftir flautuþrist frá Ólafi Ólafssyni, sem mörgum þótti ansi vafasamur, en 3,3 sekúndur hafa sjaldan verið jafnlengi að líða.

Þriðji leikhluti einkenndist aðallega af gríðarlegri baráttu. Lykilmenn beggja liða komust fljótt í villuvandræði og liðin voru gríðarlega jöfn. Eftir ótrúlega baráttu á báðum endum vallarins höfðu Stjörnumenn tveggja stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, staðan 53-51 að loknum þriðja leikhluta.

Stjörnumenn byrjuðu lokafjórðunginn mjög vel og komust í sjö stiga forskot. Þá var hins vegar komið að hluta Giordan Watson í þessum leik. Watson skoraði 12 stig í lokafjórðungnum, öll á gríðarlega mikilvægum augnablikum, og hélt Grindvíkingum inni í leiknum. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Renato Lindmets svo sína fimmtu villu og ljóst að stórt skarð var höggvið í lið Stjörnunnar, en Renato var afar drjúgur í vörn heimamanna í kvöld. Grindvíkingar náðu eftir þetta forskoti sem þeir létu ekki af hendi, en þriggja stiga skot Justin Shouse geigaði þegar um þrjár sekúndur lifðu af leiknum. Grindvíkingar innbyrtu því þriggja stiga sigur, 68-71, í leik sem hefði sannarlega getað endað á hvorn veginn sem var.

Stjörnumenn geta sjálfum sér um kennt að hafa tapað leiknum, en þeir virtust á góðu róli um miðjan lokaleikhlutann. Giordan Watson má hins vegar eiga það að hann steig upp á hárréttum tíma, en 12 stig af hans 24 stigum komu í lokafjórðungnum. Grindvíkingar fara því aftur á sinn heimavöll með algert hreðjatak á seríunni, en ljóst er að róðurinn verður ansi þungur fyrir Stjörnumenn það sem eftir lifir einvígisins. Næsti leikur liðanna fer fram í Röstinni í Grindavík næstkomandi mánudag og allt stefnir í hörkuleik.

Stigaskor leiksins:

Stjarnan: Justin Shouse 16/8 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 15/6 fráköst, Keith Cothran 14/9 fráköst, Guðjón Lárusson 6, Renato Lindmets 6/10 fráköst/5 stoðsendingar/3 varin skot, Marvin Valdimarsson 6/4 fráköst/5 varin skot, Dagur Kár Jónsson 3, Sigurjón Örn Lárusson 2, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Aron Kárason 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0.

Grindavík: Giordan Watson 24/6 fráköst/8 stoðsendingar, J'Nathan Bullock 13/10 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10/5 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/10 fráköst, Ólafur Ólafsson 7, Jóhann Árni Ólafsson 5/6 fráköst, Ryan Pettinella 3/4 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 2, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

Umfjöllun Elías Karl/Karfan.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024