Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Umfjöllun: Grindavík í úrslit Lengjubikarsins
Laugardagur 3. desember 2011 kl. 11:08

Umfjöllun: Grindavík í úrslit Lengjubikarsins

Eru Grindvíkingar að gera DHL-Höllina að hjáleigunni sinni? Gulum líður a.m.k. vel í vesturbænum og lögðu Þór Þorlákshöfn þar í undanúrslitum Lengjubikarsins í gærkvöldi og mæta því Keflavík í úrslitaleik keppninnar klukkan 16:00 í dag. Þórsarar bitu vel frá sér en Grindvíkingar voru mun betri í fjórða og síðasta leikhluta og unnu að lokum verðskuldaðan 80-66 sigur í leiknum. J´Nathan Bullock var með myndarlega tvennu, 25 stig og 17 fráköst en hjá Þórsurum voru þeir Darrin Govens og Guðmundur Jónsson báðir með 18 stig. Fráköstin töldu nokkuð í leiknum, Grindavík vann þá baráttu örugglega, 39 gegn 56!
Mike Ringgold var með ,,dólg“ í upphafi leiks og varði skot frá Sigurði Gunnari Þorsteinssyni með látum og úr varð skyndisókn Þórsara þar sem Guðmundur Jónsson smellti niður þrist. Óskabyrjun Þorlákshafnarbúa í DHL-Höllinni en Grindvíkingar voru fljótir að svara og gerðu næstu níu stig í röð.

Upphafsmínútur leiksins voru fjörugar og innihéldu tvær myndarlegar troðslur og tvo sterka þrista en J´Nathan Bullock varð til þess að slíta Grindvíkinga frá með átta stigum í röð upp á sitt einsdæmi og Grindvíkingar komust í 7-19. Að þessu búnu skipaði Benedikt Guðmundsson sínum mönnum að leika svæðisvörn og gekk hún betur en maður á mann vörnin en Grindvíkingar leiddu 17-28 að loknum fyrsta leikhluta og varnarleikur Þórs mikið áhyggjuefni ef þeir ætluðu að hleypa á sig um 28 stigum í hverjum fjórðung.

Darrin Govens var búinn að rífa af sér andlitsgrímuna í upphafi annars leikhluta en hann leikur með grímu eftir að hafa nefbrotnað í leik gegn Keflavík á dögunum. Óhætt er að segja að hann hafi allur lifnað við sem og Þórsliðið sem náði að þétta svæðisvörnina ef frá eru talin nokkur tilfelli þar sem þeir gleymdu Bullock á endalínunni í svæðinu.

Þórsarar máttu sín lítils þegar Bullock fór af stað í átt að körfunni eða vippaði sér upp í skot í teignum en að öðru leyti var vörnin allt önnur í öðrum leikhluta og héldu þeir Grindvíkingum í 14 stigum í leikhlutanum. Guðmundur Jónsson jafnaði metin í 37-37 með þriggja stiga körfu og Græni drekinn tvíelfdist fyrir vikið og lét stuðningsmenn Grindavíkur líta út eins og hinn friðsælasta bókaklúbb.

Grindvíkingar leiddu þó 40-42 í leikhléi þar sem J´Nathan Bullock var kominn með 21 stig í liði Grindavíkur og honum næstur kom Páll Axel Vilbergsson með 8 stig af bekknum. Hjá Þór var Guðmundur Jónsson með 10 stig en þeir Darrin Govens og Darri Hilmarsson með 9 og Darri venju samkvæmt með smitandi fyrirmyndarbaráttu sem hélt Þórsurum við efnið.

Villuvandræði fóru snemma að gera vart við sig í síðari hálfleik hjá Þór þar sem Darri Hilmarsson, Govens og Ringgold voru á þremur villum. Grindvíkingar virtust einnig líklegir til að stinga af, stöku þristur var að detta og gulir að leika fantagóða vörn en gáfu smá eftir í lok þriðja og Þór nýtti glufurnar með tveimur þristum frá Govens og Baldri og staðan 55-60 að þriðja leikhluta loknum.

Grindvíkingar opnuðu fjórða leikhluta 7-0 eftir körfu og villu að auki hjá Sigurði Þorsteinssyni sem jafnframt fiskaði þar fjórðu villuna á Mike Ringgold. Ólafur Ólafsson snögghitnaði einnig í leikhlutanum, þristur frá kappanum breytti stöðunni í 58-70 og annar skömmu síðar 60-73 og meira að segja stuðningsmenn Grindavíkur lifnuðu við!

Darri Hilmarsson fór af velli með fimm villur í liði Þórs þegar um fjórar mínútur voru til leiksloka og inn kom Emil Karel Einarsson sem komst ágætlega frá sínu. Þegar þrjár mínútur lifðu leiks hófst næstum því tveggja mínútna löng sókn Grindavíkur, staðan var þá 62-75 og í raun ekki ómögulegt að Þór gæti krafsað sig nærri en hvert sóknarfrákastið á fætur öðru hjá Grindvíkingum gerði út um leikinn að endingu. Lokatölur reyndust 66-80 og vann Grindavík fjórða leikhluta 20-11.

Þórsarar verða að fá miklu meira frá Marko Latinovic sem lék í 24 mínútur í leiknum, gerði 2 stig og tók 1 frákast. Skelfileg frammistaða og skildi hann Mike Ringgold einan eftir í teignum á meðan samvinna Sigurðar Þorsteinssonar og J´Nathan Bullock með vænni skvettu frá Ómari Sævarssyni skilaði Grindavík 39 fráköstum frá þessum þremur leikmönnum og þar stóð hnífurinn í kúnni.

J´Nathan Bullock besti maður leiksins að öðrum ólöstuðum með 25 stig, 17 fráköst, 4 varin skot og 2 stolna bolta. Ólafur Ólafsson bætti við 14 stigum og var líflegur á lokasprettinum og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með flotta tvennu, 14 stig og 15 fráköst. Darrin Govens var með 18 stig hjá Þór líkt og Guðmundur Jónsson og Darri Hilmarsson gerði 9 stig og sást það langar leiðir að Þórsarar munu sakna Grétars Inga Erlendssonar sem verður ekki meira með þeim þetta tímabilið sökum meiðsla.

Umfjöllun og mynd Karfan.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024