UMFG á toppnum (video)
Grindvíkingar áttu í litlum erfiðleikum með að landa sínum þriðja sigri í röð í Iceland Express-deild karla í gær. Þeir lögðu Hamar/Selfoss í Röstinni, 114-84, en staðan í hálfleik var 51-41.
Þrátt fyrir að heimamenn væru með yfirhöndina allan leikinn var varnarleikurinn að svíkja þá í fyrri háfleiknum. Þeiri kipptu því í lag í þeim seinni og var þá ljóst hvernig færi.
Clifton Cook og Svavar Pálsson voru í algjörum sérflokki í liði Hamars/Selfoss, en hjá Grindvíkingum fór fyrirliðinn Páll Axel Vilbergsson fyrir jöfnu liði. Hann skoraði alls 34 stig, þar af 8 þriggja stiga körfur, en næstur honum kom Damon Bailey með 17 stg, 13 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá átti Þorleifur Ólafsson góða innkomu eftir meiðsli og Páll Kristinsson, sem gekk til iðs við UMFG frá Njarðvík í sumar, en hann gerði 12 stig og tók 9 fráköst á 18 mínútum.
Páll sagði í samtali við Víkurfréttir vera sáttur við úrslitin í gær.
„Það var jafnræði með liðunum framan af leiknum, en þegar vörnin fór að smella hristum við þá af okkur.
Páll bærri því við að hann kynni vel við sig í gula búningnum. „Þetta er búið að vera þrælfínt. Það eru smá meiðsli búin að vera að pirra mig að undanförnu, en ég hlakka til að sjá hvernig þetta þróast hjá okkur í vetur.“
VF-myndir/Þorgils