„Um leið og fótboltinn er búinn byrja ég í körfunni“
Sverrir Þór Sverrisson, leikmaður Njarðvíkinga í knattspyrnu, hefur leikið vel í sumar þrátt fyrir að hafa byrjað seint og hefur hann oftar en ekki verið mjög skapandi fram á við. Sverrir sagði í samtali við Víkurfréttir að sér litist vel á lokabaráttuna sem framundan væri í deildinni. „Þetta mun koma til með að verða erfitt. Við ætlum að tryggja sæti okkar í deildinni og verður allt lagt í sölurnar. Takmarkið fyrir mót var að halda liðinu uppi og það er ekkert breytt. Ef svo verður verða allir ánægðir“, segir Sverrir. Hann sagðist vonast eftir því að þetta yrði ekki barátta fram á síðustu stundu. „Ég vona að við náum í stig í næstu tveimur leikjum og tryggjum sætið í deildinni. Þetta gæti þó orðið barátta fram á síðustu mínútu. Lokaleikur okkar er gegn Aftureldingu sem er í 9. sæti og það verður erfiður leikur ef við verðum ekki búnir að tryggja veru okkar í deildinni“. Aðspurður hvort hann ætlaði sér ekki að vera með í körfunni í vetur svaraði Sverrir því játandi. „Um leið og fótboltinn er búinn byrja ég í körfunni“.