Um 14.000 miðar seldir
Leikmenn og stjórnarmenn knattspyrnuliðs Keflavíkur héldu í morgun til Frankfurt í Þýskalandi, en liðið mætir FSV Mainz í 2. umferð í forkeppni UEFA bikarsins á fimmtudaginn.
Leikurinn fer fram í Frankfurt á Commerzbank Arena-leikvanginum og vonast heimamenn til að fá um 25.000 áhorfendur á leikinn, en nú þegar er búið að selja um 14.000 miða, frá þessu er greint á www.keflavik.is. Til viðbótar við heimamenn verða harðir stuðningsmenn Keflavíkur með Pumasveitina í broddi fylkingar, allt að 30 manna hópur frá Íslandi, auk þess sem nokkrir Íslendingar í Þýskalandi og stuðningsmenn Keflavíkur frá Luxemborg ætla að mæta á völlinn. Leikvangurinn tekur rúmlega 50.000 manns í sæti.
Þjóðverjar eru einnig farnir að undirbúa ferðir til Íslands með stuðningsmenn sína svo búast má við hópi stuðningsmanna FSV Mainz á leiknum í Keflavík þann 25. ágúst.
VF-mynd/ Gestur Gylfason fagnar hér 2-0 sigri Keflavíkur á FC Etzella á Laugardaslvelli