Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Úlli Open 2020 haldið um síðustu helgi
Sigurvegarinn, Bjarki Guðmundsson, með bikarinn ásamt börnum Úlla; Gunný, Evu Rut og Þorfinni, og Kristínu ekkju hans. Aftast er Jóhannes Barkarson, frændi Úlla, sem gaf bikarinn.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 21. ágúst 2020 kl. 14:24

Úlli Open 2020 haldið um síðustu helgi

Styrktarmót sem haldið var til minningar um Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, Úlla pípara

Um síðustu helgi fór fram minningarmótið Úlli Open 2020 í Vestmannaeyjum. Mótið er haldið til minningar um Gunnlaug Úlfar Gunnlaugsson, Úlla pípara, annan stofnanda Lagnaþjónustu Suðurnesja en hann lést 22. september síðastliðinn. Úlli var fæddur á Siglufirði þann 5. apríl 1957 og bjó þar fyrstu árin með fjölskyldu sinni en flutti til Eyja á unglingsárum þar sem hann vann og bjó þar til hann flutti til Grindavíkur þar sem hann bjó og starfaði þar til hann lést.

Úlli kynnti sig sem Úlla Eyjamann, fæddan á Siglufirði en búandi og starfandi í Grindavík.  Hann lék golf með vinum sínum og hafði ætlað að halda golfmót í Grindavík á síðasta ári en heilsan hreinlega leyfði það ekki – hann tók loforð af vinum sínum að halda golfmótið, þótt síðar væri. Það var síðan ákveðið strax í kjölfar fráfalls hans að halda minningarmót og gera það að árlegum viðburði, til þess að halda minningu yndislega Úlla á lofti og styrkja um leið félagasamtök í hans nafni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ættingjar og vinir vilja þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við undirbúning þessa móts kærlega fyrir. Lagnaþjónusta Suðurnesja sem Úlli stofnaði ásamt Rúnari Helgasyni kom myndarlega að mótinu með fjárstyrk, en Þorfinnur sonur Úlla er nú meðeigandi Rúnars að Lagnaþjónustunni. Allir þátttakendur greiddu að sjálfsögðu myndarlegt mótsgjald og vinningar komu frá Bláa lóninu, Harbour View, Northern Light Inn, Golfklúbbi Grindavíkur og Golfklúbbi Vestmannaeyja, Miðstöðinni, Skipalyftunni, Geisla, Byko, 4x4 Adventures, Papas Pizza, Hafinu, Esju, Sælkeradreifingu og Stóra sviðinu og að auki gaf Jóhannes Barkarson, frændi Úlla, glæsilegan farandbikar.

Glæsilegu móti lauk með sigri Bjarka Guðmundssonar frá Grindavík, þannig að farandbikarinn verður fyrsta árið varðveittur í Grindavík. Í verðlaunaafhendingunni afhentu Kristín Gísladóttir, ekkja Úlla, og börn hans, Eva Rut, Þorfinnur og Gunný Krabbavörn í Vestmannaeyjum allt það sem safnaðist í kringum mótið, eða 327.000 krónur. Kristín Valtýsdóttur tók við framlaginu og þakkaði fyrir þennan styrk með fallegum og vel völdum orðum.

Aðstandendur mótsins þakka stuðninginn og minna á að mótið verður haldið aftur á næsta ári og stefnan er að gera enn betur þá.

Kristín Valtýsdóttur tók við styrknum fyrir hönd Krabbavarna í Vestmannaeyjum og þakkaði fyrir með fallegum og vel völdum orðum.


Þessi er fyrir Úlla!

Þorfinnur Gunnlaugsson, sonur Úlla, sagði blaðamanni Víkurfrétta þessa skemmtilegu sögu sem tengist mótinu.

„Þrír nánustu vinir pabba, þeir Bjarni Ólafur Guðmundsson, Birgir Sveinsson og Kristófer Helgason, voru í fyrsta hollinu í mótinu. Þeir léku eðlilega hver sínum bolta en slógu svo til skiptis fjórða boltanum, sem var rauður, fyrir pabba. Það var svo á sunnudeginum að Daddi [Bjarni] vinur hans fór í golf og á tólftu holu Vestmannaeyjavallar ákvað hann að slá aukabolta, rauða boltann sem þeir voru að nota í mótinu, og sagði: „Þessi er fyrir Úlla!“ Svo sló hann báðum boltunum.

Síðan voru þeir að leita að boltunum út um allt en fundu hann ekki ... fyrr en honum var litið í holuna. Þá hafði hann farið holu í höggi með boltanum hans pabba. Alveg ótrúlegt því pabbi fór aldrei holu í högg, ég held að hann hafi aldrei verið nálægt því.“

Mótið heppnaðist vel og þátttakendur sem skipuleggjendur voru glöð og kát að móti loknu.